149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þessi orð eru mjög í tíma töluð. Það er mikilvægt að við skoðum söguna og lærum af henni. Hún hefur margt fram að færa og vísar okkur veginn í ýmsum efnum. Í þessu tilfelli gerir hún það svo sannarlega. Gleymum því ekki að það var mikið afrek á sínum tíma að koma raforkukerfinu í það stand sem það er í í dag. Það var ánægjulegt og áhugavert að hlusta á ræður hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar þar sem hann rakti vel og stuttlega sögu uppbyggingar raforkukerfisins á Íslandi sem byrjar með smávirkjunum í Skaftárhreppi þar sem voru miklir hugvitsmenn og frumkvöðlar í þeim efnum. Það eru kynslóðir sem hafa lagt heilmikið af mörkum til að koma okkur á þann stað sem við erum á í dag.

Það er mjög mikilvægt að fólk hafi þetta í huga. Það er það mikið í húfi. Núna þegar við höfum þetta góða raforkukerfi á Íslandi, línurnar, virkjanirnar og allt þetta sem tryggir okkur hagsæld og búsetuskilyrði eins og þau gerast best í harðbýlu landi, þurfum við að fara að standa vörð um þessi gildi okkar, þessi lífsgæði og búsetuskilyrði sem eru einstök miðað við landfræðilega legu.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta. Þetta er mjög góður (Forseti hringir.) og mikilvægur punktur í þessari umræðu.