154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

fjáraukalög 2024.

1078. mál
[16:38]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Í þessum fjárauka er verið að bæta við viðbótarútgjöldum upp á 13 milljarða kr. sem falla lögum samkvæmt undir útgjöld sem eru ófyrirsjáanleg. Þetta eru 3 milljarðar í barnabætur, 6 milljarðar í einskiptisvaxtabótagreiðslu, 600 milljónir í fæðingarorlof, 1,5 milljarðar í skólamáltíðir og 1,3 milljarðar í húsaleigubætur. Þetta eru þessar stóru upphæðir. Við erum að sjá núna vaxtabótaeingreiðslu upp á 6 milljarða kr. í kerfi sem á síðan að falla niður eftir næsta ár, einmitt til þess að skapa svigrúm fyrir kjarasamningana sem þessir 6 milljarðar eru þó hluti af. Í raun á þess vegna að spara á næstu árum þessa 6 milljarða sem núna er verið að greiða út með því að leggja vaxtabótakerfið niður eftir næsta ár ef við teljum saman 2026, 2027 og 2028. Það má vel vera að hæstv. fjármálaráðherra þyki þetta þvæla, að stilla hlutunum með þessum hætti upp en verklagið í hv. fjárlaganefnd er frekar einfalt. Við fáum til okkar fjármálaráðuneytið og þau útskýra fyrir okkur hvernig fjármagnið er sett saman og fjárhagssvigrúmið. Fjárlaganefnd fékk til að mynda töflu með helstu útgjaldalækkunum eftir málefnasviðum og ég hef prentað hana út þótt það sé ekki nema bara fyrir sjálfa mig að líta til en ég gæti afhent hæstv. ráðherra ef hann hefur ekki séð þessi gögn, vegna þess að þar er m.a. talað um að fyrir næsta ár sé aukið 9 milljarða svigrúm í málaflokki örorku og málefnum fatlaðs fólks út af frestun á ákveðnum aðgerðum.

Það getur vel verið að það hljómi betur í eyrum margra að tala um að þessar frestunaraðgerðir hafi ekkert haft með kjarasamningana að gera. En það breytir því ekki að það er ekki hægt að koma sér undan pólitískri ábyrgð. Það er verið að stilla því upp sem svo að aðgerðir sem er lagt af stað með í kjarasamningum séu ábyrgar vegna þess að þær eru fjármagnaðar en svo er ekki vilji til að tala um með hvaða hætti þær eru fjármagnaðar. Það er verið að færa hluti til víða í komandi fjármálaáætlun til að borga fyrir þessa kjarasamninga. Vaxtabæturnar og niðurlagning þess kerfis er partur af því. Frestun á örorkukerfinu, á bótakerfinu og uppfærslu á því, er partur af því. Það er ýmislegt annað sem er partur af þessu og það væri bara hreinlegra ef hér kæmu stjórnmálamenn upp og viðurkenndu að það er forgangsraðað í pólitískum fjárlögum. Það er í raun ekkert að því en það skiptir máli að skilaboðin séu skýr.

Í þessum fjárauka sem við erum að ræða um hér í dag er talað um að 45.000 börn fái gjaldfrjálsar skólamáltíðir, sem kostar ríkið 1,5 milljarða á þessu ári til móts við sveitarfélögin sem þurfa að finna fjármagn til að fjármagna á móti þessu. Við vitum, forseti, að fjármálaráðherra gerði í umsögn sinni um fjármálaáætlun fyrir næsta ár sérstaklega athugasemdir við svona breiðar aðgerðir sem eru ekki sértækar. Þetta á auðvitað sérstaklega við, forseti, ef ætlunin er ekki að finna tekjur á móti þessu. Það er bara enginn vilji til að ræða um pólitískar ákvarðanir um að finna tekjur. Það lítur einhvern veginn allt betur út með því að láta embættismenn í fjármálaráðuneytinu færa hluti til til þess að þurfa ekki að svara fyrir það. En það er ekki trúverðugt til lengri tíma.

Ég nefndi áðan þessa 17 milljarða í ráðstöfunum sem eru auðvitað ekkert annað en aðhald og niðurskurður sem var notað til að hægja á útgjaldavexti í fjárlögunum sem við samþykktum fyrir jól. Það var ekki auðvelt að finna þetta aðhald og ef það er talað við ríkisstofnanir víða um land geta þær alveg sagt hæstv. fjármálaráðherra að þetta aðhald er ekki sársaukalaust, en eins og ég segi, þessir 13 milljarðar fara langleiðina í þá hagræðingarkröfu. Ef við tækjum aðhaldið sem fól í sér lækkun á launakostnaði hjá hinu opinbera þá var í rauninni allt aðhaldið sem samþykkt var núna í fjárlögunum étið upp af þessum aðgerðum sem væri gott og vel ef þær væru fjármagnaðar á móti. En aðhaldið er þá í raun farið.

Það er gripið til ákveðinna breytinga hér, forseti, endurmats á afskriftum, eins og ég nefndi í andsvari við hæstv. ráðherra áðan, sem liggur alveg fyrir og fjármálaráð hefur gert athugasemd við að breyti ekki þenslustigi í hagkerfinu. Þetta er reiknuð stærð. Svo er þessi blessaða arðgreiðsla frá Landsvirkjun. Hér er verið að leita að leiðum til að draga úr þenslu af ákveðnum aðgerðum. Við skulum hafa í huga að þessir 10 milljarðar sem hæstv. ráðherra segir að hafi óveruleg áhrif á fjárfestingargetu Landsvirkjunar — eins og fólk geti bara fundið 10 milljarða einhvers staðar sem skipti ekki nokkru máli, þó að þetta hafi ekki áhrif á fjárfestingargetu. Segjum sem svo að það skipti engu máli þó að hún sé ekki með þessa 10 milljarða, þá breytir það því ekki að þetta er þensluhvetjandi aðgerð vegna þess að þetta eru 10 milljarðar sem voru bundnir inni í fyrirtækinu og ef þeir voru þá ekki að fara í fjárfestingu hefðu þeir verið bundnir inni í fyrirtækinu, ekki að hringsóla um hagkerfið, en eru núna að leita í umferð. Þetta skiptir máli, þetta á hæstv. fjármálaráðherra að skilja og allir þeir sem fara með stjórn ríkisfjármála, að 10 milljarðar sem koma inn í hagkerfið úr engu og voru óvirkir hafa áhrif. Þess vegna höfum við verið að takast á um hvort eigi að fara í sértækar aðgerðir sem draga úr þenslu á tekjuhliðinni, vegna þess að þessi áhrif skipta máli.

Þess vegna var ég að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þetta, vegna þess að þetta skiptir okkur í Samfylkingunni máli, að þegar ráðist er í svona breytingar á tilfærslukerfunum eins og var gert núna í tengslum við kjarasamninga sé góð reynsla af þessu. Að mörgu leyti eru fingraför sósíaldemókrata á þessum aðgerðum. Þetta eru aðgerðir sem höfum talað fyrir í kjarapakka eftir kjarapakka hérna og alltaf fjármagnað og það skiptir máli að fólk upplifi að þetta gangi upp en þetta gengur ekki upp ef þetta er þensluhvetjandi og ekki fjármagnað.

Þetta eru rekstrartengdar ákvarðanir. Þetta er ekki einskiptisaðgerð, þó að vissulega í þessu tilviki sértu með þessa vaxtabótaeingreiðslu sem á síðan að éta upp með því að fella sama kerfi niður eftir eitt ár eða tvö ár. Þetta snýst ekki um einskiptisaðgerðir. Væntanlega eru allir þeir aðilar sem ríkið og hið opinbera og hinn almenni markaður er að semja við að ganga út frá því að þetta sé langvarandi breyting á því hvernig velferðarkerfið á Íslandi er rekið. Þá þarftu að vera með langvarandi fjármögnun á því, ekki einskiptisaukaarðgreiðslu frá Landsvirkjun. Þetta er prinsippmál við rekstur ríkissjóðs.

Þetta sýnir okkur, hæstv. forseti, að það var ekkert plan til staðar fyrir þessa kjarasamninga. Það sem hér hefur verið óskað eftir og ég hef verið að óska eftir og við í Samfylkingunni er að við vörpum upp stórum pólitískum spurningum sem fela í sér hvað sé verið að hreyfa til til að gera okkur kleift að bæta kerfin okkar. Er það pólitísk ákvörðun að ákveða að greiða meira út úr Landsvirkjun? Er það pólitísk ákvörðun að flytja hluti til í tímaramma? Ef við ætlum að tala um þenslu og aðgerðir til að vega á móti þenslu í staðinn fyrir að auka hana, er eðlilegasta aðgerðin að leggja niður vaxtabótakerfið, að treysta á auknar skerðingar til eldra fólks, að treysta á að það verði færri nýir öryrkjar og frestun örorkubótaframfara, eða nýta arðgreiðslur sem annars færu í þjóðarsjóð sem vill svo til að verið er að fara að mæla fyrir eftir að við ljúkum umræðu um þetta frumvarp hér, þjóðarsjóð þar sem sérstaklega er tekið fram að ástæðan fyrir því að það á að eyrnamerkja arðgreiðslur úr Landsvirkjun sé til að koma í veg fyrir að þær séu nýttar til þess að borga fyrir tilfærslur úr ríkissjóði? Þetta er sama ríkisstjórnin og þarf að binda sig í báða fætur vegna þess að hún ræður annars ekki við sjálfa sig.

Við erum, eins og ég sagði, ekki að reyna að finna leiðir til að skattleggja fólk meira og láta því líða illa. Við erum að velta hér upp aðgerðum til að vinna á móti þenslu svo þetta kjarasamningaútspil gangi upp af því að við viljum öll að þetta gangi upp en engin af þeim tekjuaðgerðum sem voru lagðar fram hérna af ríkisstjórninni eru til að vinna raunverulega gegn þenslu þar sem hún er. Ég spyr bara þingheim: Er þensla hjá þeim sem nýta vaxtabótakerfið? Er þensla meðal þeirra sem munu þola meiri skerðingar vegna þessara breytinga? Er þensla meðal öryrkja? Er þensla í orkuframkvæmdum á Íslandi? Ekkert af þessu á við. Þetta eru að mörgu leyti embættismannaaðgerðir sem við sjáum birtast í þessum fjárauka og munum líka ræða í hv. fjárlaganefnd í fjármálaáætlun og fólk vill ekki einu sinni horfast í augu við aðgerðirnar og ákvarðanirnar sem er verið að taka. Það lætur eins og það sé bara kerfið sem sé að bjarga þessu. Hvert erum við komin í íslenskri pólitík þegar fólk getur ekki einu sinni talað fyrir sínum eigin aðgerðum?

Forseti. Mig langar í lokin aðeins að ræða almenna varasjóðinn. Hæstv. fjármálaráðherra kom hér inn á áðan að það væri augljóst að það væri ekkert stefnuleysi til staðar hjá ríkisstjórninni þrátt fyrir að þau væru að grípa til þess að fara í þennan fjárauka, fór að blanda því saman við Grindavík, sem að mínu mati er frekar ómerkileg pólitík vegna þess að þessir kjarasamningar og geta okkar til að fjármagna langtímaaðgerðir og umbætur á velferðarkerfinu eru allt annars eðlis en stakar aðgerðir, m.a. sem ég veit ekki betur en þjóðarsjóðurinn hafi t.d. átt að fjármagna. En núna er verið að grípa til þess ráðs að grípa inn í arðgreiðslugetu Landsvirkjunar, mögulega á næsta eða þarnæsta ári eftir að þjóðarsjóðurinn er kominn til og þar með fjármagn sem hefði komið inn í Grindavík. En þær upphæðir sem voru inni í almenna varasjóðnum fyrir jól voru ekkert fyrir þetta kjarasamningsútspil.

Ég er hér með útprent úr þessum málaflokki frá fjárlögunum frá því í fyrra. Þetta eru 8,2 milljarðar sem eiga að bætast við á milli ára. Vissulega er upphæðin 45 milljarðar kr. sem er há upphæð en annars vegar lækkaði fjárheimild málaflokksins um 17 milljarða milli ára vegna þess að árið áður hafði verið staðsett þarna fjármagn til að mæta kjarasamningshækkunum á síðasta ári. Síðan náðust þeir kjarasamningar og þá þurfti ekkert að hafa þetta lengur inni. Hins vegar hækkaði fjárheimild til málaflokksins, vissulega út af launabreytingum en ekki út af kjarasamningum heldur er búið að taka þá ákvörðun núna ár eftir ár, eins og hv. fjárlaganefnd og meðlimir í fjárlaganefnd vita vel, í staðinn fyrir að dreifa launakostnaði og verðbólgukostnaði, sem má búast við að fari á hvert og eitt málefnasvið. Það er búinn að vera svo mikill óstöðugleiki í íslensku efnahagslífi og það veit enginn hvernig á að gera ráð fyrir þessu, þá hefur þetta allt verið sett í almenna varasjóðinn og svo á að dreifa þessu út eftir á. Þannig að þetta hefur í rauninni ekkert með kjarasamningana að gera þótt vissulega hafi ríkt óvissa um það. En þetta hefur a.m.k. ekkert með einhverjar sérstakar kjaraaðgerðir að gera.

Síðan voru inni í þessum málaflokki, almennum varasjóði, 9,2 viðbótarmilljarðar til að styrkja sjóðinn til að taka þátt í erfiðri stöðu núna vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd og til þess að vera með meira svigrúm vegna þess að það var auðvitað vitað af mögulegum áföllum í tengslum við jarðhræringar.

Ég geri enga athugasemd við að hæstv. fjármálaráðherra og við í Samfylkingunni séum ósammála um einstaka aðgerðir. Ég geri bara þá kröfu að við getum rætt um þær, ekki látið eins og það sé ekkert að gerast hér, þetta hafi bara mögulega verið í varasjóðnum, síðan hafi verið ákveðið að gera eitthvað annað, 10 milljarðar í Landsvirkjun séu eitthvað sem skipti engu máli. Þetta skiptir máli. Þessar aðgerðir sem ríkisstjórnin réðst í varðandi kjarasamningana skiptu verulegu máli. Það vilja allir hér inni að þetta gangi upp. En til að þetta gangi upp þarf að vera plan. Fólk þarf að upplifa að þetta hafi ekki verið bara svona reddingaraðgerð og síðan þegar þessi ríkisstjórnin sé frá sé enginn grundvöllur til áframhaldandi fjármögnunar á verkefnunum. Þannig rekurðu ekki velferðarkerfi og það er ekki til þess fallið að auka stöðugleika í íslensku samfélagi, forseti.