149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:48]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Orð fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, „lofsverðar blekkingar“, hafa öðlast skýra merkingu. Hér er um blekkingar að ræða. Ég ætla ekki að taka undir orðið „lofsverðar“, en myndin er orðin alveg skýr. Það var ríkisstjórninni algjört áfall að veita viðtöku lögfræðilegri álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar. Viðbrögðin eru þau að utanríkisráðuneytið efnir til einhvers konar skoðanaskipta eða bréfaskipta við þá. Þetta kemur fram í 6. kafla þeirrar álitsgerðar. Hvað gera þeir? Þeir gefa sig ekki. Þeir halda sig við sína meginniðurstöðu, meginályktun, megintillögu um að málið fari fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Þannig skila þeir endanlegri útgáfu af sinni álitsgerð.

Aftur er málið greinilega tekið upp við þá sem leiðir til þess að þeir skrifa ráðuneytinu bréf, hæstv. utanríkisráðherra, sem, ef mig rekur rétt minni til, er dagsett 10. apríl. Og hvað gera þeir þar? Þeir árétta eina ferðina enn megintillögu sína, að þetta mál, eins og það er vaxið, eigi að fara fyrir sameiginlegu EES-nefndina með það fyrir augum að það hljóti þar sáttameðferð á grundvelli ákvæða í samningnum sjálfum og með það fyrir augum að undanþágur verði veittar frá þeim reglugerðum sem þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu um að feli í sér, að orkupakkanum samþykktum, a.m.k. óbein áhrif erlendra aðila á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar.

Að þessari niðurstöðu fenginni, herra forseti, hefði ríkisstjórninni verið réttast að falla frá þessu máli. Þess í stað býður hún Alþingi upp á að leggja þetta fram með þeim hætti sem hér hefur verið gert.

Í raun og veru, herra forseti, stendur ekki steinn yfir steini í þessu máli. Það sem átti að bjarga málinu var eitthvert hugtak, einhver lagalegur fyrirvari. Það sér það hver einasti maður með lágmarksgripsvit á lögfræðilegum hugtökum og lögfræðilegri hugsun að enginn lagalegur fyrirvari, sem menn hafa samið um við sjálfa sig, fær breytt efnislega gerð sem hefur verið innleidd í íslenskan landsrétt, inn í íslenska lagasafnið með þeim hætti sem að slíkar gerðir eru teknar inn. Það er engin heimild í samningnum til þess að breyta ákvæðum þessara gerða. Það er ekkert hægt að segja: Við ætlum að innleiða þessa gerð en ætlum samt ekki að innleiða hana eins og er verið að gefa til kynna með þessu.

Þannig að, herra forseti, stjórnarflokkarnir eru hver með sínum hætti horfnir frá uppruna sínum. Sjálfstæðisflokkinn skortir þá festu sem hann hafði einu sinni til að bera og er alveg bersýnilegt í fleiri málum, og þarflaust að rekja því að þau blasa við öllum mönnum. Það vantar allar upplýsingar inn í þetta mál. Það er engin greining á þjóðréttarlegu gildi þessa lagalega fyrirvara. Hún er kannski út af fyrir sig óþörf. Það blasir við að hann getur ekki haft neitt þjóðréttarlegt gildi og reyndar sagði Davíð Þór Björgvinsson á fundi utanríkismálanefndar að svo væri ekki, enda væri þetta bara til heimabrúks.

Þetta mál er reist á sandi, herra forseti. Það er út af fyrir sig tilgangslaust að vera að kalla eftir því að hv. þingmenn sem fylgja þessu máli skýri afstöðu sína því að þeim er vorkunn. Það er bara ekki nokkur leið fyrir þá að gera það vegna þess að þetta mál (Forseti hringir.) er bara lögfræðilegur óskapnaður. Þetta er óboðlegt. Þetta er ekki þingtækt. Að réttu lagi ætti að vísa þessu máli frá.