149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:34]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður er á réttri braut en ég myndi vilja bæta öðru við. Það er rétt sem hann segir með það samkeppnisforskot sem felst í verðinu. En það er líka gríðarlega mikið samkeppnisforskot fólgið í því að við seljum hreina orku. Það á ekki hvað síst við á sviði nýsköpunar því að fjölmörg nýsköpunarfyrirtæki líta mjög til þess hvaðan orkan kemur. Það á til að mynda við um mörg gagnaver sem vilja geta státað sig af því að vera rekin á umhverfisvænni, endurnýjanlegri orku.

Það vill svo til að ég hafði einmitt hugsað mér í næstu ræðu minni, þar sem ég held áfram umfjöllun um efnahagslegar afleiðingar þriðja orkupakkans, að rekja samspilið milli hefðbundins iðnaðar og nýsköpunar, sem er gríðarlega sterkt. Við sjáum auðvitað fjölmörg dæmi um það. Við sjáum hvað áliðnaðurinn á Íslandi hefur leitt af sér mikla nýsköpun á ýmsum sviðum. Sjávarútvegurinn hefur heldur betur leitt af sér mikla nýsköpun. Allt helst þetta í hendur. Ef samkeppnishæft orkuverð verður til þess að hefðbundið iðnfyrirtæki er reiðubúið að fjárfesta hér og byggja upp, og við höfum vissulega mörg dæmi um slíkt, leiðir það af sér nýsköpun og þróun á jafnvel tiltölulega ólíkum sviðum.

Alltaf komum við að þessu sama. Orkan er grunnurinn sem allt hitt byggir á, hvort sem það er hefðbundinn iðnaður, nýsköpun eða tekjur almennings, skatttekjur o.s.frv. o.s.frv.