142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eitthvað varð að gera. Það var ekki þannig að þrotabúið sem við tókum við hafi bara læknast af sjálfu sér. Og talandi um skatta og skatthlutföll þá er það nú veruleikinn, hversu oft sem Sjálfstæðisflokkurinn, Samtök atvinnulífsins og Verslunarráð tuða um hið gagnstæða, (Gripið fram í: Samfylking.) hversu marga skattadaga sem hin og þessi samtök halda, að skatthlutföll á Íslandi eru hin lægstu á Norðurlöndunum. Þau eru undir meðaltali OECD og sérstaklega er skattalegt umhverfi atvinnulífsins mjög hagstætt á Íslandi.

Tökum þar ferðaþjónustuna, hvernig er það? Það er 0% virðisaukaskattur á fólksflutningum, stór hluti af afþreyingu í ferðaþjónustu er flokkaður sem fólksflutningar; hestaferðir, hvalaskoðun, jöklaskoðun, og ber 0% virðisaukaskatt. 7% virðisaukaskattur á gistingu, 20% tekjuskattur á hagnað fyrirtækja, þriðja lægsta hlutfallið innan OECD, 20% fjármagnstekjuskattur eða skattur á arð. Samtals er skattur á hagnað fyrirtækja og arð þar af leiðandi 36%, sem er annað lægsta hlutfallið innan OECD.

Það er veruleikinn. Það eru staðreyndirnar og það þýðir ekkert að reyna að búa til einhvern séríslenskan hægri veruleika um að hér sé einhver ægileg skattpíning. Það hrynur eins og spilaborg ef menn hafa fyrir því einu að skoða alþjóðlegan samanburð, lesa skýrslur OECD, lesa norræn talnagögn og svo framvegis.

Af hverju eruð þið að þessu, hv. þingmenn hægra liðsins? Af hverju talið þið svona steypu og trúið því sjálfir þegar hver sem er sem kann á netið getur á fimm mínútum sótt sér gögn um að það er ekki rétt? Skatthlutföll eru lág á Íslandi. (Gripið fram í: Og fjárfesting …) Þau eru lág þrátt fyrir það sem við gerðum til að reyna að bæta aðeins afkomu ríkissjóðs. Þannig er það.