154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur þakka hv. upphafsmanni þessarar umræðu fyrir tækifærið til að ræða þessi mál í þinginu og ég verð að segja að ég tel að það sé í ljós komið í dag að það var fullt tilefni til að ræða þessa hluti. Ég vísa þá kannski einkum til þess að skoðanir eru mjög skiptar. Sumir hafa valið þann kostinn að fara að draga Landsvirkjun eitthvað inn í umræðuna. Það er auðvitað alveg fráleitt, enda engin áform uppi um að selja hlut í Landsvirkjun. Aðrir hafa sagt að við ættum bara að slá lán fyrir arðbærum eignum og ekkert að vera að velta fyrir okkur eignasölu. Það er ákveðið sjónarmið ef menn vilja auka vaxtakostnað ríkisins vegna arðbærra fjárfestinga.

Ég er sammála hv. frummælanda að þegar um er að ræða eignir sem engin sérstök ástæða er fyrir ríkisvaldið að halda á vegna þess að aðrir geta gert það jafn vel, og við séð um þann þáttinn sem snýr að reglusetningu og öllu lagaverkinu í kringum það eins og t.d. á við á fjármálamarkaði, þá eigum við að ganga hreint til verks og losa um eignarhald ríkisins. Reyndar er það nú dálítið skondið, af því að hér hefur verið talað talsvert um eignasölu, að ætli það sé ekki þannig þegar allt er saman tekið að með aðgerðum sem tengdust afnámi haftanna þá hef ég nú líklega í minni tíð tekið til ríkisins af einkaaðilum margfalt hærri fjárhæðir heldur en hafa verið seldar í minni tíð. Reyndar tókum við þær án gagngjalds fyrir ríkissjóð upp á svona 400–500 milljarða á virði þess tíma og höfum síðan verið að berjast fyrir því að losa aftur um þær eignir. Margt af því hefur verið umdeilt og verður auðvitað að taka opna umræðu um það en grunnþráðurinn hjá hv. málshefjanda er réttur: Ríkið á að losa sig út þar sem aðrir geta tekið við og nýta fjármunina betur í þágu allra landsmanna.