Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 11. fundur,  10. okt. 2022.

landamæri.

212. mál
[16:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Hér er bara verið að mæla fyrir málinu og við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd munum taka það fyrir og fara hratt og vel yfir það. Mér finnst mikilvægt að geta þess hér, því að þetta mál var líka lagt fram á síðasta þingi, að þann 13. júní síðastliðinn, á 46. fundi allsherjar- og menntamálanefndar, þá bókuðum við eftirfarandi undir þessu máli, landamæramálinu, með leyfi forseta:

„Með fyrirliggjandi frumvarpi eru lögð til heildarlög um landamæri og m.a. þær grunnreglur sem gilda um för einstaklinga yfir landamæri. Þörfin fyrir slíka lagasetningu er aðkallandi. Frumvarpið er viðamikið og næst ekki að ljúka umfjöllun þess og afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Brýnt er að það verði því endurflutt sem fyrst á næsta löggjafarþingi og hljóti forgangs í vinnu nefndarinnar svo tryggt sé Ísland uppfylli samningsskyldur sínar vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu. Þá leggur formaður til að umsagnarfrestur um málið verði lengdur og þá unnt að byggja á því samráði við vinnu nefndarinnar á næsta löggjafarþingi.“

Virðulegur forseti. Mér finnst bara mikilvægt að komið hafi fram að hv. allsherjar- og menntamálanefnd var einhuga um það á síðasta þingi að við myndum leggja mikinn metnað í að vinna þetta mál hratt og vel þegar það kæmi fram. Og eins og komið hefur hér fram í andsvörum við hæstv. ráðherra þá hefur nefndin farið til Keflavíkur og hitt þar starfsfólk Isavia og starfsfólk ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á svæðinu til að kynna sér þær breytingar sem þar eru fyrirhugaðar. Ég segi fyrir mitt leyti að ég held að þarna séum við að tala um mjög mikilvæga innleiðingu og mikilvægan þátt í því heildarumhverfi sem við erum að tala um, þótt þetta hafi ekki beint með útlendingamálin eða málefni hælisleitenda að gera, eins og sumir vildu kannski láta líta út fyrir í umræðunni áðan.