154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:13]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er svolítið hugsi yfir upplegginu í þessari umræðu. Það réttlætir ekki eignasölu að ráðstafa andvirðinu í arðbært verkefni. Þetta er einfaldlega tvennt ólíkt; arðbærni verkefnisins og eignasala ríkisins. Eins mikið og Sjálfstæðisflokknum er hugleikið að reka ríkið vel, og vitnar þar oft til fyrirtækjareksturs, sem á reyndar ekki alltaf við, enda munur á því að reka ríkið, sem lifir að eilífu og gegnir hagstjórnarhlutverki, og reka fyrirtæki, þá virðist sá málflutningur gleymast hér. Fyrirtæki selur ekki eignir til að bæta sjóðstreymi eða fjármagna stök verkefni, nema ef það er í stórkostlegum fjárhagsvandræðum, oft þegar stefnir í gjaldþrot. Fyrirtæki selur eignir sem henta ekki rekstri þess. Það hefur ekkert með uppbyggingaráform fyrirtækisins að gera. Fyrirtækið ákveður hvort það ráðstafi hagnaði í arð eða fjárfestingu eftir arðbærni verkefna eða tekur lán eftir arðbærni verkefna. Hið sama á við um ríkið og fyrirtæki í þessu samhengi. Ef eignir eru keyptar eða seldar á það að byggja á því hvort ríkið eigi að vera í slíkum rekstri eða ekki. Það skapast engin verðmæti af eignasölu. Eign hefur virði á efnahagsreikningi, byggt á framtíðarsjóðstreymi. Sala á slíkri eign skapar engin ný verðmæti. Hún losar bara um fjármagnið í einu lagi.

Við getum vel rætt um hvort ríkið eigi einhverjar eignir sem það ætti ekki eiga af því að það hentar ekki hlutverki þess en sala eigna hefur ekkert að gera með það hvort ráðast eigi í arðbæra innviðauppbyggingu eða ekki. Annaðhvort er slík uppbygging arðbær eða ekki. Ef fólk hefur síðan áhyggjur af þenslu á tímum verðbólgu er eðlilegra að grípa til mótvægisaðgerða, að beita sértækum tólum ríkisins á tekjuhlið til að draga úr þenslu þar sem hún er til staðar frekar en að selja eignir sérstaklega til að eiga fyrir arðbærum verkefnum. Ákvörðunin um sölu og ákvörðun um að ráðast í arðbæra uppbyggingu ættu að vera ótengdar.