154. löggjafarþing — 11. fundur,  9. okt. 2023.

Ráðstöfun söluágóða af ríkiseignum til fjárfestinga í mikilvægum innviðum.

[16:30]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Það er bara ágætt að Sjálfstæðisflokkurinn fái útrás fyrir sitt einkavæðingarblæti í saklausri sérstakri umræðu. Það hefur verið athyglisvert að hlusta á það sem hér hefur komið fram. Mér heyrist bæði málshefjandi og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, ritari og formaður Sjálfstæðisflokksins, vera mjög óánægðir með það hvernig ríkið hefur haldið utan um sínar eignir á undanförnum árum ef ekki áratugum. Þetta er sannarlega umhugsunarvert, því að hvaða flokkur er það sem hefur farið alla jafna með fjármálaráðuneytið á þessum tíma? Hvaða flokkur er það sem ber ábyrgð á því að tryggja góða umsýslu ríkiseigna, að ríkislönd séu nýtt vel og seld ef þau nýtast ekki vel og hefur borið ábyrgð á utanumhaldi um þetta allt saman? Það er auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn.

Hér er talað um að eyrnamerkja ákveðna eignasölu tilteknum framkvæmdum o.s.frv. og af því að bankahrunið á afmæli þessa dagana er kannski við hæfi að rifja upp að þegar Síminn var einkavæddur áttu fjármunirnir að nýtast til samgönguúrbóta og til byggingar spítala. Hvað gerðist svo? Jú, peningunum var sturtað út í formi neyðarláns til Kaupþings sem endurheimtist ekki nema að litlu leyti. En sú hugsun sem hér birtist er auðvitað bara kunnugleg. Kunnuglegt stef og klassísk leið hægri manna í ríkisfjármálum er að selja ríkiseignir, jafnvel mikilvægar og tekjumyndandi ríkiseignir, til að fjármagna útgjöld til skamms tíma og fegra þannig ríkisbókhaldið. Til dæmis má breiða yfir einhverja tekjurýrnun sem hefur átt sér stað vegna ósjálfbærra skattalækkana um stundarsakir og skapa þannig útgjaldasvigrúm til skamms tíma en grafa undan samneyslunni og rekstri velferðarþjóðfélags til lengri tíma. Þetta kallast að svelta skepnuna (Forseti hringir.) og er eitthvað sem við jafnaðarmenn tökum ekki þátt í og Sjálfstæðisflokkurinn getur auðvitað gleymt því að reyna hér að selja Landsvirkjun eða einu fluggáttina inn í landið. Við munum aldrei leyfa því að gerast.