144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekkert skemmtilegt að standa í þessu argaþrasi hér. Þetta er því miður eina vopnið sem við í stjórnarandstöðunni höfum til að láta ekki valta yfir okkur eins og meiri hluti atvinnuveganefndar reynir að gera með breytingartillögu sinni sem við teljum mörg hver að brjóti beinlínis lögin um rammaáætlun sem svo eru kölluð en heita lengra og virðulegra nafni.

Þetta er mjög alvarlegt. Það er allt í frosti hérna. Það er líka allt að fara í frost hérna fyrir utan þinghúsið. Allt þjóðfélagið er að fara í frost. Við þurfum að ræða við stjórnvöld um kjaradeiluna og hvort þau hafi einhverja hugmynd um hvernig þau hyggjast leysa hana. Fyrst þurfum við að leysa þetta. Það er hægt að gera það á hálftíma. (Forseti hringir.) Síðan getum við unnið hin venjulegu störf hér.