149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:47]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég les álit Eyjólfs Ármannssonar með svipuðum hætti og hv. þingmaður og mér sýnist það falla í svipaðan farveg og álit Friðriks Árna og Stefáns Más. Mér þótti líka eiítið athyglisvert að höfundurinn hefur búið og starfað í Noregi undanfarin ár og þekkir kannski betur til mála þar en margur annar.

En álitaefnin í þessu máli eru mörg. Ég get út af fyrir sig skilið að hæstv. utanríkisráðherra nái ekki að lesa allar umsagnir sem liggja fyrir í þessu máli. En það sem kom mér á óvart í máli hans í gær var sú fjarlægð sem mér virtist hann vera í frá áliti þeirra Stefáns Más og Friðriks Árna. Ég þráspurði ráðherra út í þessa niðurstöðu þeirra tvímenninga, vegna þess að það var ástæða til, það fengust engin svör frá hæstv. ráðherra, að erlendum stofnunum væru veitt ítök í orkuauðlindum þjóðarinnar með þeim hætti sem þeir hafa lýst með orðalaginu „a.m.k. óbein áhrif“ á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar. Mér fannst hæstv. ráðherra tala eins og hann þekkti (Forseti hringir.) það ekki mjög vel.