154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

brottvísun þolenda mansals úr landi.

[15:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Enn og aftur segi ég að ég mun ekki tjá mig um einstök mál. Ég mun ekki gera það heldur mun ég treysta þeim stofnunum, eins og ég sagði fyrr í máli mínu, sem hér eru og því kerfi sem Alþingi Íslendinga hefur komið sér saman um að viðhafa í íslensku stjórnkerfi. Við verðum að bera traust til þeirra stofnana um að þær taki málin vel fyrir og að allir eigi jafnan aðgang og gæti jafnræðis í meðförum þeirra mála.

Hv. þingmaður talar hér um breytingu á útlendingalögum sem varð á síðasta ári þegar einstaklingar sem fá ekki vernd hér á landi missa þjónustu ef þeir hafa ekki yfirgefið landið eftir 30 daga. Það er alveg ljóst (Forseti hringir.) að eftir þann tíma eru viðkomandi einstaklingar í ólögmætri dvöl í landinu og þar af leiðandi ber þeim að yfirgefa landið. (Forseti hringir.) Ég hef rætt það að ég hef hug á því að koma hér með frumvarp er varðar búsetuúrræði með takmörkunum sem myndi vera (Forseti hringir.) mun hentugra úrræði heldur en gæsluvarðhald á Hólmsheiði.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir bæði hv. þingmenn og ráðherra á að ræðutími er takmarkaður í óundirbúnum fyrirspurnum, tvær mínútur í fyrri ræðu og ein mínúta í síðari ræðu.)