154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

772. mál
[15:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að gera grein fyrir atkvæði mínu. Ég styð þetta mál eindregið og vil hrósa hæstv. velferðarráðherra fyrir þetta mál. Jú, þetta er vissulega tæknilegt en þetta er mál sem skiptir máli og bæði Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið hafa lýst yfir eindregnum stuðningi við það.

Um leið vil ég líka nota tækifærið hér í pontu og brýna ríkisstjórnina að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)Ég verð að segja að ég hef ákveðnar áhyggjur af því að það verði ekki undir því forsæti sem er núna í ríkisstjórninni. Þess vegna vil ég nota tækifærið og hvetja fólk til dáða þegar kemur að þessu mikilvæga réttindamáli, ekki síst verandi með ráðherra hér til hægri og vinstri handar, að taka þetta skref til fulls. Við undirrituðum þetta einhvern tímann í mars 2007, við fullgiltum þetta 2016. Við eigum eftir að klára þetta og við skuldum þessu góða fólki að við klárum þessi réttindamál alveg alla leið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)