139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Singapúr-samnings um vörumerkjarétt.

677. mál
[15:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér röð af frumvörpum og tillögum til þingsályktunar sem fjalla um hin ýmsu mál sem öll eru mjög mikilvæg. Í 1. málsl. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar stendur að eignarrétturinn sé friðhelgur. Hvað felst í því, herra forseti? Það er mjög víðtækt ákvæði. Á Vesturlöndum hefur eignarrétturinn verið mjög klipptur og skorinn. Hann felst í veðbókarvottorðum, hann felst í því að hægt er að skrá eign og tryggja hana á margan hátt og það sem er mest um vert — hugverkarétt má tryggja meðal annars með vörumerkjum og einkaleyfum. Vörumerki eru eign sem fylgir ákveðinni vöru eða t.d. hugbúnaði. Ég minni á vörumerkið Microsoft sem er afskaplega verðmætt. Ég minni á vörumerkið Coca Cola sem er sennilega verðmætasta vörumerki í heimi og fylgir ákveðnum drykk sem kunnugt er. Í vörumerkjum felst þannig eignarréttur. Með samkomulagi um vörumerki á heimsvísu er eignarrétturinn á þessum vörumerkjum í raun og veru staðfestur. Eignarrétturinn var mjög vanþroskaður í fyrrum Sovétríkjunum og kommúnistaríkjum yfirleitt, Kína þar með talið en þróunin hefur verið sú að hann hefur byggst upp, t.d. í Kína, þó að hann sé enn nokkuð vanþroskaður að ég tel þó ég hafi ekki kynnt mér það nýverið. Mjög mikilvægt er fyrir aðila sem ætla að flytja vörur og þjónustu til þeirra landa að vörumerki sé viðurkennt sem hluti af eignarrétti.

Sumir telja jafnvel að sú hagsæld sem Vesturlönd hafa búið við umfram kommúnismann sem beið skipbrot hafi stafað af því að eignarrétturinn var virtur á þennan hátt, menn hafi haft að einhverju að keppa þegar þeir rannsökuðu einhvern hlut eða bjuggu til hugbúnað, eins og Microsoft gerði og er að gera og er stöðugt að bæta í verðmæti þess vörumerkis. Þessi tillaga til þingsályktunar fjallar því aðallega um eignarrétt. Með hliðsjón af því vildi ég gjarnan að hv. utanríkismálanefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar velti fyrir sér hvort það eigi ekki heima til enn frekari og nákvæmari skoðunar hjá hv. efnahags- og skattanefnd sem fjallar um efnahagsmál. Ég tel að eignarrétturinn og efnahagsleg áhrif hans eigi heima þar en þó má vel vera, herra forseti, að málið heyri undir viðskiptanefnd þar sem þetta er mjög tengt viðskiptum. Kannski væri lausnin sú að vísa málinu til beggja nefnda.

Ég tel mikilvægt að menn skoði þetta nákvæmlega og átti sig á hvað hér er innifalið. Það er mjög skemmtilegt sem hæstv. ráðherra kom inn á að vörumerki eru ekki lengur eitthvert prentað merki á blaði heldur geta þau verið hólógrafía eða heilmyndir, myndir í þrívídd eins og við sjáum í nýjustu kvikmyndunum, lykt og hljóð og bragð og annað slíkt. Það er mjög áhugavert að vörumerki geti falist í einhverju hljóði.

Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í þetta, ég hef ekki kynnt mér tillöguna nægilega vel til þess, en ég átta mig á því að það er mjög umfangsmikið og hefur mikil áhrif.