149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hefði kosið að geta átt frekari orðastað við hæstv. utanríkisráðherra. Hann svaraði ekki öllum þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann og sneri út úr sérstaklega einni þeirra. Ég ætla því að víkja aðeins að henni.

Ég tel hæstv. ráðherra hafa snúið út úr þegar hann fjallaði um sæstrenginn. Það er augljóst og ég held óumdeilt að verði þessi fyrirvari, lagasetning þess efnis að ekki verði hægt að leggja sæstreng án leyfis Alþingis — þá sneri ráðherra samt út úr. Auðvitað snýst þetta um með hvaða hætti Alþingi hagar þeirri lagasetningu og innleiðingu sem hindrar að lögaðilar geti lagt sæstreng. Hvort sú lagasetning eða ófullnægjandi innleiðing geti leitt til þess að viðkomandi lögaðilar beiti kvörtunum og/eða kærum til ESA. Og þá hvort í kjölfarið geti komið upp sú staða að Ísland teljist brotlegt gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og lagasetning og/eða ófullnægjandi innleiðing Alþingis feli þá í sér viðskiptahindranir í skilningi tilskipana og reglugerða þriðja orkupakkans.

Þetta er grundvallaratriði. Það er ekkert einfalt að segja að sett verði lög sem segi til um að ekki verði lagður sæstrengur án leyfis Alþingis.

Þarna eru bara heilmikil álitaefni sem hæstv. utanríkisráðherra hefði þurft að svara og útskýra betur fyrir þingheimi. Það held ég að sé óumdeilt. Þetta verður að skýra að fullu. Það getur reynst okkur verulega dýrt ef sú staða kemur upp að við teljumst brotleg eða innleiðingin ófullnægjandi.

Við höfum lent í því að innleiðing hefur verið talin ófullnægjandi. Það þekkjum við úr hráakjötsmálinu, frystiskyldunni. Við þekkjum hvað það reyndist ríkissjóði verulega dýrt. Það skipti milljörðum sem ríkissjóður þurfti að greiða út í bætur.

Þarna eru atriði sem verða að fást á hreint í þessum efnum. Ekki viljum við vera í sömu sporum og við vorum í þegar frystiskyldumálið kom upp á sínum tíma. Það var lagasetning sem við töldum að væri alveg fullnægjandi. En annað kom síðan í ljós. Langt og erfitt ferli með málaferlum og öllu sem þeim fylgir, áhyggjur Bændasamtakanna af því hvernig málin myndu þróast.

Þetta olli verulegu tjóni, vil ég meina. Þarna var röng innleiðing á ferðinni. Í mínum huga er nokkuð ljóst þegar maður les þetta yfir og rýnir með gagnrýnum huga að þarna er á ferðinni óvissa sem gæti verið af alveg sama toga og frystiskyldumálið sem ég nefndi og við þekkjum öll.

Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég hafði mikinn áhuga á að ræða við utanríkisráðherra. Hann sá sér ekki fært að vera hér lengur. (Forseti hringir.) Ég lýsi miklum vonbrigðum með það.