149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

eákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:56]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er afskaplega áhugavert að heyra sjónarmið hv. þm. Ólafs Ísleifssonar á framsali valds til alþjóðlegrar stofnunar, sem við erum að fjalla um. Lögfræðilegir ráðunautar ríkisstjórnarinnar hafa bent á að með innleiðingu orkutilskipunar hafi alþjóðlegar stofnanir a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar.

Þetta var innleitt í Noregi á sínum tíma, í fyrra. Þar háttar öðruvísi til þegar verið er að innleiða regluverk Evrópusambandsins sem ganga hugsanlega í berhögg við norsku stjórnarskrána. Þar er farið fram á aukinn þingmeirihluta í norska Stórþinginu. Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann hvort við innleiðinguna þar hafi verið óskað eftir auknum meiri hluta þingsins. (Forseti hringir.) Það myndi án nokkurs vafa gefa a.m.k. vísbendingar um hversu nærri íslensku stjórnarskránni er gengið með innleiðingu orkupakkans.