153. löggjafarþing — 110. fundur,  23. maí 2023.

Stytting vinnuvikunnar.

[15:12]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þetta tækifæri til að ræða styttingu vinnuvikunnar, sem er verkefni sem farið var af stað með í góðum hug og með góðum fyrirætlunum. Íslendingar hafa öldum saman verið dugleg þjóð sem byggði á landbúnaði og sjósókn. Oft var hart í ári og þurftu einstaklingar að leggja á sig langa og erfiða vinnudaga til að hafa í sig og á. Þessa arfleifð mátti glöggt sjá þegar ég var að alast upp; sjómenn og verkafólk sem vann myrkranna á milli á vertíð og bændur sem unnu sleitulaust sumarlangt.

Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref á vinnumarkaði var ekki óalgengt, svo dæmi sé tekið, að lögreglumenn á vöktum væru með svona 100–120 yfirvinnutíma á mánuði. Það eru þrjár vikur aukalega. Þetta þótti hið besta mál enda þénuðu menn vel á yfirvinnunni. Hins vegar, eðli málsins samkvæmt, voru viðkomandi einstaklingar nánast ekkert heima hjá sér til þess að sinna heimili eða fjölskyldu. Þau viðhorf hafa breyst, virðulegur forseti, og að mínu viti er það eitt af þeim púslum sem ekki var nægilega horft til við útfærslu þessa verkefnis. Í dag er það þannig, ólíkt því sem ég lýsti hér á undan, að í mörgum tilfellum gengur erfiðlega að fá einstaklinga til að vinna yfirvinnu. Er litið svo á að umsaminni vinnu ljúki þegar vakt eða vaktatörn lýkur og vilji er til að eyða meiri tíma heima fyrir en að eyða þeim tíma á vinnustaðnum. Þetta breytta viðhorf gerir það að verkum að það mönnunargat sem myndast með færri unnum vinnutímum á hvern einstakling verður mjög erfitt að fylla. Gert var ráð fyrir því að vilji starfsmanna til yfirvinnu væri mjög ríkur en í ljós hefur komið að svo er ekki.

Að því sögðu er ljóst að framgangur verkefnisins mun verða mjög erfiður og margfalt dýrari en gert var ráð fyrir og nú hefur komið í ljós.