154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

skerðing persónuafsláttar íslenskra lífeyrisþega í útlöndum.

[15:25]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Ég varpaði fram mildilegri ábendingu um atriði sem ýmsir eldri borgarar myndu að óbreyttu hnjóta um. Það er alveg hárrétt að ástandið á Íslandi almennt er gott og að meðaltali gott og betra en oft áður en við erum að tala um fátæka fólkið. Við erum að tala um þessa tíund sem Flokkur fólksins hefur einbeitt sér sérstaklega að því að berjast fyrir og það fólk er kannski ekki eins klókt á internetið og fínni intrígur þess eins og þeir sem yngri eru og aldir upp við þá tæknibyltingu. Þess vegna er þetta einfaldlega beiðni um það að fólk sem kannski er ekki nægilega vel á verði gagnvart einhverjum lagarefjum eða flækjufóti þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessu, vegna þess að þetta á jú bara við það fólk sem greiðir skatta sína á Íslandi. Þannig að persónuafslátturinn kemur til þegar þú ert að greiða skatta á Íslandi. (Forseti hringir.) Því spyr ég enn og aftur félagshyggjuforkólfinn Sigurð Inga Jóhannsson, (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra fjármála, hvort við getum ekki bara losað þetta undan yfirvofandi breytingum (Forseti hringir.) um næstu áramót. Það er ekki um mikið beðið.