154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

skerðing persónuafsláttar íslenskra lífeyrisþega í útlöndum.

[15:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur getur alla vega lofað hv. þingmanni því að hann sé tilbúinn að fara yfir þetta mál. Ég held að í þessu máli sé talsverður misskilningur og það sé einmitt nauðsynlegt að fara yfir það til að útskýra í hverju þetta felst nákvæmlega. Þetta er ekki illvilji nokkurs manns, hvorki þeirra sem eru að vinna í fjármálaráðuneytinu né ríkisstjórnar eða eitthvað slíkt. Hér er verkefni til einföldunar. Því miður er það þannig að þessi leið sem verið hefur hingað til er í raun og veru eins og hefur verið bent á að stóru leyti að renna í ríkissjóð annarra landa sem hafa fyrst og fremst verið að sækjast eftir vel stæðum Norðurlandabúum í góðu velferðarkerfi, þar með töldum Íslendingum.

Svo ætla ég að lokum líka að segja að ég geri mér alveg grein fyrir því að það eru á Íslandi alltaf einhverjir hópar sem þarf meira og betur að passa upp á en aðra á hverjum einasta tíma. En ég ætla líka að halda því fram að á síðastliðnu sex og hálfa ári hefur þessi hópur hvorki stækkað né staða hans versnað.