154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[17:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að túlka orð hv. þingmanns þannig að hann telji að ekki hafi átt sér stað fullveldisafsal þegar við höfum tekið þátt í því mikilvæga alþjóðasamstarfi sem við höfum staðið fyrir og beitt okkur fyrir, hvort sem það er innan NATO, EFTA-ríkjanna eða EES-samningsins. Ég tek heils hugar undir með hæstv. utanríkisráðherra um að sá samningur er mikilvægasti milliríkjasamningur sem við höfum gert, ekki síst þegar litið er til lífskjaraaukningar okkar Íslendinga núna á þeim áratugum sem samningurinn hefur gilt.

Ég vil hins vegar taka undir með hv. þingmanni þegar hann nefndi neytendaverndina og nefndi það sem þarf að klára hér. Það eru ýmis mikilvæg málefni sem snerta réttindi einstaklinga og lögaðila sem ekki hafa verið fullklárað af okkar hálfu. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hefur verið sett fram um leið og ég segi og bendi á að það er heimatilbúinn vandi, þessi bírókratismi eða þetta þunga embættismannareglugerðafargan sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir. Við erum að sjá það í hverju málinu á fætur öðru að tæplega 400.000 manna þjóð vill flækja regluverkið meira en 500 milljóna markaður. Mér finnst það ámælisvert af því að til að mynda á sviði orkumála eða annarra sviða höfum við ekki verið að einfalda regluverk eins og við hefðum átt að gera til að fara m.a. í það að nýta betur auðlindir okkar í þágu lands og þjóðar og betri lífskjara. Hitt er síðan, og ég kem að því í minni ræðu, að það er augljóst af ræðu hv. þingmanns að — ég ætla ekki að segja að það sé vík milli vina innan ríkisstjórnarsamstarfsins en það er augljós, ekki bara áherslumunur (Forseti hringir.) sem við vitum af, það er ágreiningur þegar kemur að því að fylgja eftir bókun 35. (Forseti hringir.) Við í Viðreisn munum vera á vaktinni og ég undirstrika (Forseti hringir.) að við munum aðstoða ríkisstjórnina ef þörf krefur þegar kemur að því.