143. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2014.

samkeppnishindranir í fiskvinnslu.

437. mál
[10:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Verð á fiski milli útgerðar og vinnslu í eigu sömu aðila er málefni sem oftlega hefur verið rætt í þinginu og þjóðfélagi okkar yfirleitt, auðvitað oft í tengslum við hlut sjómanna og með hvaða hætti er farið með slík viðskipti skyldra aðila eða sömu aðila og að rétt sé farið með þau kjör.

Það hefur auðvitað líka verið um þetta fjallað í tengslum við veiðigjöld og álagningu þeirra og áhyggjur af því að hagnaður sé fluttur á milli eftir því hvar hagkvæmast er að hann komi fram skattalega. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að vinnslan var að hluta til tekin undir veiðigjöldin á sínum tíma.

Þetta hefur líka verið risastórt mál hvað varðar samkeppni í fiskvinnslu, þ.e. að aðilar með frumkvæði og stöðu á markaði hafi aðgang að hráefni og geti keppt við aðrar fiskvinnslur á jafnréttisgrunni, og iðulega rætt um hugmyndir svo sem þær að allur fiskur eigi að fara á markað. Það er út af fyrir sig ekki til umræðu hér, en skylt er það því að Samkeppniseftirlitið hefur beint þeim tilmælum til sjávarútvegsráðherra að grípa til ráðstafana vegna verðlagningar á milli útgerðar og vinnslu í eigu sömu aðila. Samkeppniseftirlitið hefur bent á að minnsta kosti fjórar leiðir sem fara megi sem varða reglusetningu um verðlagningu af þessu tagi og möguleika á því að efla Verðlagsstofu skiptaverðs og aðrar tæknilegar úrlausnir til að tryggja að betur sé að þessu staðið en nú er.

Aðalatriði málsins er ekki fyrirspurn mín og ég ætla ekki að orðlengja um þetta því að fyrirspurnin lýtur að því hvaða ráðstafana hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlar að grípa til til þess að bregðast við þessum samkeppnishindrunum í fiskvinnslu og tryggja að þessi verðlagning sé með þeim hætti að Samkeppniseftirlitið telji ásættanlegt. Er það einhver af þeim leiðum sem Samkeppniseftirlitið hefur bent á, og þá hver, eða er það önnur leið sem ráðherrann hefur séð í málinu til að mæta þessum sjónarmiðum? Það er mikilvægt að ryðja úr vegi samkeppnishindrunum í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og að fiskvinnsla án útgerðar geti keppt á sanngirnisforsendum.