149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Þegar farið er yfir álit fræðimanna sem hafa fjallað um þetta mál og lögmanna og þeirra sem þekkja til Evrópuréttar, eru skilaboðin nokkuð misvísandi. Þeir sem hafa efasemdir og vara við eru nokkuð ákveðnir í sínu orðavali, vil ég segja.

Eins og þingmaðurinn benti réttilega á vitum við af hinum svokallaða fjórða orkupakka. Nú hefur einhvers konar kynning á fjórða orkupakkanum farið fram hér úti í bæ, ef má orða það þannig, hagsmunaaðilar eða einhverjir þess háttar hópar hafa fengið kynningu á honum og vissulega má segja að það sé hluti af einhverju ferli við þetta allt saman. Er til of mikils mælst, er ekki eðlilegt, ekki síst í ljósi þess sem hv. þingmaður nefndi áðan varðandi mögulega málshöfðun, að horfa á heildarmyndina og sjá hvert fjórði orkupakki leiðir okkur?

Við sáum þegar við tókum upp aðra orkutilskipunina, sem við getum kallað orkupakka tvö, að hún leiddi af sér ákveðnar breytingar á raforkukerfinu hér, umsýslu þess á Íslandi. Það er vísað til þess varðandi orkupakka þrjú að við innleiddum orkupakka tvö svo glæsilega og uppfylltum meira en við þurftum að gera. Það hefur líka komið fram í máli og reyndar útúrsnúningum sumra þingmanna sem eru fylgjandi þessu að lagabreyting sem gerð var 2015 hafi verið hluti af orkupakka þrjú. Þar var hins vegar bara verið að bregðast við ákveðnum hlutum í annarri orkutilskipuninni. Nú liggur sú fjórða fyrir framan okkur. Er ekki ábyrgðarhluti að horfa ekki á þessa samfellu í heild og setjast kannski niður og bera hana saman við orkustefnu Evrópusambandsins, sem er líka til og ætti að vera öllum þokkalega aðgengileg?