149. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svarið. Evrópusambandið hefur lagt mikla áherslu á orkumál undanfarið og kannski má segja að á einum tímapunkti hafi menn vaknað upp við það hversu háðir þeir hafa verið innflutningi á orku, bæði frá Rússlandi og með skipum, gas og þess háttar frá arabalöndum o.s.frv. Þeir töldu að það yrði nauðsynlegt að fara aðrar leiðir og stórjuku kaup á orku, m.a. frá Noregi, og settu mikla fjármuni í vindmyllur og fleira.

Hv. þingmaður spurði forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í dag um orkupakka fjögur, ef ég man rétt, í það minnsta var það þemað. Forsætisráðherra svaraði og lýsti í rauninni bara ferlinu sem EES-gerðir fari í gegnum þegar þær verða til og gerði það ágætlega. En í ljósi sögunnar, í ljósi markmiða Evrópusambandsins og í ljósi þess að orkuþörfin minnkar síst hjá Evrópusambandinu, er þá ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því að þegar menn taka mögulega það skref að innleiða orkupakka þrjú verði ekki aftur snúið með frekari innleiðingar? Við séum búin að ganga það langt í að taka upp orkustefnu Evrópusambandsins að Evrópusambandið, Noregur, Liechtenstein og mjög margir stjórnmálamenn á Íslandi, mögulega þeir sem kiknuðu í hnjánum 2015, telji að ekki verði aftur snúið, það verði bara að innleiða þetta, það verði bara að klára þetta, taka orkupakka fjögur, fimm o.s.frv.