149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þykist vita að það hafi verið draumur Sjálfstæðisflokksins að málið yrði útrætt fyrir afmælisveisluna, alveg eins og ég veit að það er von Framsóknarflokksins, sem er nota bene flokkurinn sem er í smekkbuxum og með axlabönd og belti og álímda hárkollu og á nýjum skóm eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir lýsti — hann er að seinka miðstjórnarfundi sínum, að öllum líkindum vegna þess að þingmenn hans og forysta treysta sér ekki til að hitta félaga sína með þetta mál opið. Ekki held ég þetta bara, vegna þess að ég veit þetta, ég hef fengið skilaboð frá Framsóknarfólki sem í sjálfu sér vonar á okkur sem höfum staðið í því að malda í móinn hérna um að þetta mál verði enn opið þegar miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins fer fram sem er einhvern af fyrstu dögunum í júní.

Það segir okkur kannski, alla vega að mínu áliti, að það ágæta fólk hafi undir niðri slæma samvisku, enda er þetta ágæta fólk yfirleitt góðar manneskjur, eins og hv. þingmaður sem heiðrar okkur með nærveru sinni hér í dag. Auðvitað vill maður trúa því að það fólk vilji ekki endilega ganga á bak orða sinna, eins og það hefur reyndar gert núna, þess vegna var ég alltaf að vona að um leið og við veltum við öllu því sem við erum búin að gera núna í umræðunni, og ég mun koma inn á það á eftir í ræðu minni, að ekkert nýtt hafi komið fram í þessu. Jú, það hefur nefnilega eitthvað nýtt komið fram í þessu, nánast á hverjum einasta degi. Mig langar til að spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) sem þekkir t.d. betur til í Sjálfstæðisflokknum en ég, hvort hann telji ekki að menn muni kannski sjá að sér þegar þeir sjá það nýja sem búið er að gerast og komið fram í þessu máli.

(Forseti (BHar): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)

Frú forseti. Ég biðst afsökunar.