149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég lít svolítið á þetta sem afmörkuð box eins og hv. þingmaður nefnir. Ég gef ekkert fyrir það að við þurfum að samþykkja orkupakka þrjú vegna þess að við höfum samþykkt orkupakka eitt eða tvö, ég hef aldrei alveg skilið þau rök og tek ekki undir þau. Sömuleiðis finnst mér ekki að við þurfum að samþykkja orkupakka fjögur bara vegna þess að við samþykktum orkupakka þrjú. Ég hef kynnt mér orkupakka þrjú með opnum huga og hlustað á áhyggjur og spurningar fólks um efnið en þær hafa einfaldlega ekki valdið mér áhyggjum hvað varðar efni orkupakka þrjú enn sem komið er. Ég ítreka enn og aftur að ég er allur eitt eyra. Aftur á móti finnst mér sjálfsagt að skoða það í samhengi við orkupakka fjögur. Ég hef bara ekki gert það enn þá en skal gera það meðan á þessari umræðu stendur, ef hún heldur áfram sem mér sýnist að hún muni gera og mér finnst það alveg sjálfsagt.

Hvað varðar hindranirnar get ég mjög vel skilið að fólk skilji hugtakið hindrun þannig að öll náttúrulögmál og allar aðstæður séu einhvers konar hindranir. En það er ekki sá skilningur sem er átt við með EES-samstarfinu eða markmiðum þessa pakka (Forseti hringir.) eins og ég skil hann. Hann er að fjarlægja hindranir sem yfirvöld setja eða eru stofnanalegar á einhvern hátt, ekki að fjarlægja hindranir í jarðbergi og fjarlægðum.