149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:45]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég er komin í pontu fyrst og fremst til þess að koma með pínu fjölbreytileika í umræðuna, yngja aðeins upp og svo er ég víst líka kona. Varðandi þriðja orkupakkann sé ég í hendi mér að málið verður samþykkt hér á þingi enda mál sem stjórnin hefur lagt fram. Ég hef lesið þingsályktunartillöguna nokkuð vel í gegn og varðandi þann hluta tillögunnar sem ég skil sem svo að hafi verið hér mest til umræðu stendur m.a. að sæstrengur verði ekki lagður nema þingið samþykki það. Reyndar finnst mér að sú umræða megi liggja á milli hluta enda hefur almennt verið kallað eftir því að þingið grípi til aðgerða vegna loftslagsvár og ég sé ekki alveg hvernig lagning sæstrengs myndi ýta undir sjálfbærni Íslands orkulega séð eða að slíkar framkvæmdir myndu að einhverju leyti fara saman við markmið Íslands og annarra Evrópuríkja um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Reyndar væri ég til í að sjá lestargöng milli Íslands og meginlandsins fyrst við þurfum bráðum að hætta að nýta okkur flugsamgöngur, en það er önnur umræða.

Mér finnst þó mikilvægt að ræða aðeins þann vinkil sem hefur komið upp varðandi aðild Íslands að EES-samstarfinu. Hér hefur sprottið upp einhvers konar keppni um hvor hliðin geti fundið fleira ungt fólk sem er annaðhvort á móti EES-samstarfinu eða með því. Ég tel þó að aðild að EES-samstarfinu sé ekki eitthvað sem einungis viðkemur unga fólkinu heldur öllum. Ég á svolítið erfitt með að sjá fyrir mér hvernig Ísland myndi líta út ef við værum ekki í EES. Það er auðvelt að halda fram að eitthvað sé slæmt og vekja ótta fólks við eitthvað sem það skilur ekki til hlítar. En hvað ef við ímynduðum okkur að við værum ekki hluti af þessu alþjóðlega samstarfi?

Eins og við flestöll vitum hafa íslensk ungmenni lengi sótt sér menntun og reynslu á meginlandi Evrópu. Mér finnst það frábært og hef sjálf nýtt mér að það er frjálst flæði fólks á milli ríkja Evrópu án þess að það þurfi að fara í gegnum einhvers konar síu stjórnvalda. Þetta eru forréttindi sem ég tel að gleymist oft í umræðunni. Þetta felur líka í sér að fyrirtæki á Íslandi geti sótt þekkingu til erlendra borgara að ógleymdu því að sú mikla uppbygging á húsnæði sem hefur átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega hefði eflaust verið ómöguleg nema hér hefði komið fólk einmitt frá EES-svæðinu til að sinna lægst launuðu störfunum, því miður, svo við gætum fengið öruggt húsaskjól.

Aðild að EES dregur þannig ekki að mínu áliti úr því að við séum íslensk þjóð. Ég er ekki sammála þeim málflutningi að við munum missa einhvern hluta af fullveldi okkar. Við erum búin að vera hluti af EES síðan 1993 og ég hef ekki orðið vör við það að við höfum misst einhver sérkenni sem þjóð. Auk þess finnst mér frekar varhugavert að ala á ótta við erlend öfl. Það kemur mér persónulega við þar sem ég er barnabarn innflytjenda og það kemur mér við sem samfélagsþegni því að ég sé ekki alveg hvernig samfélagið myndi haldast gangandi ef ekki kæmi hingað fólk erlendis frá til að læra og starfa.

Ímyndum okkur aðeins hvernig Ísland væri án EES-samstarfsins. Þá gætu eldri borgarar ekki á auðveldan hátt eytt elliárunum á Kanarí og hver ætti þá að halda uppi fjörinu á Klörubar? Unga fólkið myndi þurfa að sækja um alls konar undanþágur til að fá að lifa og starfa á meginlandi Evrópu. Einnig má velta því upp hvort fólk myndi þá yfir höfuð snúa til baka til Íslands eftir að hafa víkkað út sjóndeildarhringinn á erlendri grundu. Auk þess, eins og hefur ítrekað verið bent hér á, væri neytendavernd ekki jafn góð og raun ber vitni sem ég tel mjög mikilvægan þátt í EES-starfinu.

Ég tel því óþarfa að ala á ótta við erlend öfl og í hæsta máta hættulegt. Tjáningarfrelsið er vissulega fallegt og lýðræðið er mikilvægt. Tjáningarfrelsið gefur lýðræðislega kjörnum fulltrúum leyfi til málþófs og ég er fullkomlega meðvituð um að það er eitt af fáum verkfærum minni hlutans til að rökræða málin og koma fram með kröfur til meiri hlutans um að eitthvað verði gert eða aðhafst.

Ég get ekki lokið ræðu minni án þess að benda á það kostulega sjónarspil sem ég hef séð hér síðustu daga sem er einmitt karlar að spjalla við karla daginn út og inn. Mætti segja að hér hafi hápunkti feðraveldisins verið náð og ég óska Miðflokksmönnum innilega til hamingju með það.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni enda hef ég það fyrir reglu að tjá mig ekki nema ég hafi eitthvað að segja og tel að ég hafi komið öllu mínu á framfæri varðandi þetta mál.