149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi gripið það rétt að það var engin viðbótarspurning. Það rifjaðist upp fyrir mér, eftir að ég fór í pontu áðan, atriði sem ég hefði kannski átt að koma inn á í fyrra svari mínu. Stefán Már Stefánsson, sem er annar höfundur þeirrar skýrslu eða greiningar sem mest hefur verið vitnað til hér í umræðunni um þriðja orkupakkann, hefur gefið út þá skoðun sína að hann meti það sem svo að hæstaréttardómurinn um ófrosna kjötið sé rangur. Ég kem betur inn á það í ræðu síðar þó að það sé kannski örlítið ótengt málinu en samt mun ég ná að tengja það inn þannig að forseti geri ekki alvarlegar athugasemdir, vona ég, á þeim grundvelli að þetta undirbyggi eða réttlæti þá afstöðu að fyrirvarar séu fyrst og fremst til heimabrúks, sem mér heyrist þingmaðurinn vera sammála mér um.

Ef ég man rétt var afstaða Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors sú að hæstaréttardómurinn í kjötmálinu væri rangur vegna þess að Ísland hefði átt að vera með nægjanlega fyrirvara til að tryggja að þetta yrði ekki niðurstaðan. Þeir fyrirvarar voru síðan ekki taldir halda þannig að þess heldur er ástæða til að skoða rækilega hvernig fyrirvörum í þessu þriðjaorkupakkamáli er háttað. Þó að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson telji þá vera til heimabrúks og þá vera óþarfa, ef ég skil þingmanninn rétt, eru þetta engu að síður kjarnarökin. Ef það eru einhver ein rök sem við pikkum út úr öllum gögnum málsins, hvað það varðar að sannfæra þingmenn stjórnarmeirihlutans um að hleypa þessu máli í gegn með þeim hætti sem lagt er upp með, eru þetta kjarnarökin, þ.e. að þessir fyrirvarar séu þarna og að þeir haldi.