150. löggjafarþing — 111. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[22:27]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum nú á lokasprettinum við að afgreiða þetta mál sem hefur að mörgu leyti reynst erfitt að ná utan um. Mikil vinna hefur farið fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og var málið kallað inn á milli 2. og 3. umr., m.a. vegna erindis sem öllum þingmönnum barst frá Alþýðusambandi Íslands. Nefndin kallaði til sín gesti frá Alþýðusambandinu og Samtökum atvinnulífsins. Þar var hlustað á sjónarmið og síðan ræddi nefndin málið. Ég held að nefndin hafi komist að ágætri málamiðlun með þeirri breytingartillögu sem hér er lögð fram. Ég reikna með að enginn sé fullkomlega ánægður með hana og þess vegna held ég að hún sé ágæt. Ég styð hana og ég fagna því að samkomulag skyldi nást um þetta í nefndinni. Ég ætla ekki að setja á langar ræður en ég hvet hv. þingmenn til að styðja þá breytingartillögu sem fram er komin. Ég held að hún sé góð lausn á vanda sem við stóðum öll frammi fyrir.