151. löggjafarþing — 111. fundur,  10. júní 2021.

fjáraukalög 2021.

818. mál
[11:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir góða spurningu. Við lögðum okkur fram í nefndinni um að kynna okkur úrræði sem verið er að kalla eftir fjárheimildum til og varða vinnumarkaðinn, Hefjum störf og vinnustaðastyrkinn. Við höfum verið með önnur úrræði eins og Nám er tækifæri o.s.frv. Ég hef verið mjög hugsi um það að lengja tímabilið. Ég man þegar ég kom fyrst hingað inn á þing 2013 að þá styttum við tímabilið, það var mjög sársaukafull aðgerð, og fórum til baka í 30 mánuði. Ég segi að ég sé hugsi vegna þess að framan af tímabilinu var ég á þeirri skoðun að mögulega væri skynsamlegt að fara strax í að lengja tímabilið. Nú þegar við sjáum að það er að birta til, eins og hv. þingmaður kom inn á, þá er ég ekki svo viss um það. Ég er þvert á móti kannski kominn á þá skoðun að það sé skynsamlegra að vera með virkniúrræði. Kúfurinn á eftir að koma. Eins og hv. þingmaður kom inn á er eilítil aukning með þá sem detta út en við eigum bara að vera dugleg að nýta þau virkniúrræði sem eru til staðar og koma með ný. Ég er á þeirri skoðun að við eigum ekki að fara í að lengja tímann. Við höfum farið í ýmis önnur úrræði. Við höfum lengt tekjutengda tímabilið og við höfum komið með barnabótaauka og við höfum hækkað bæturnar og slík úrræði. Í lengstu lög eigum við að leggja áherslu á virkniúrræði.