154. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[14:48]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Ég fagna því að þetta mikilvæga mál sé komið hér til afgreiðslu eftir góða samvinnu þingheims og í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þar sem var mikil sátt um að vinna þetta mál vel og örugglega saman. Það kom alveg skýrt fram þar að eftirvænting eftir þessu máli er mikil. Þetta rýfur vissa kyrrstöðu í mörgum málum. Það hefur margt verið vel gert en það er margt sem þarf að gera og mörg verkefni sem þarf að koma áfram.

Mig langaði bara að koma hér og leggja áherslu á tvennt sem kemur fram í nefndarálitinu. Það er mikið af verkefnum sem lúta að framkvæmdum og framkvæmdanefnd þarf að endurspegla þekkingu og reynslu af framkvæmdum og sveitarstjórnarmálum sem og skipulags- og byggingarmálum. Svo líka varðandi staðsetningu nefndarinnar eða vinnu hennar og mikilvægi þess að vinna hennar fari að verulegu eða nokkru leyti fram í Grindavíkurbæ, nærri aðstæðum og íbúum. Ég legg mikla áherslu á þetta.