149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:03]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir prýðisræðu sem mér fannst oft og tíðum svolítið háðsk, sem er mjög góður kveðskapur og veitir manni oft það að maður fer frekar að veita máli athygli þegar svo er mælt.

En öllu gamni fylgir alvara. Ég man eftir því fyrir jólin þegar átti að koma þessu í einhverjum jólapakkabúningi inn í þingið urðum við strax svolítið hvumsa við. Þingmaðurinn minntist á belti og axlabönd, smekkbuxur og fleira, og að þeim aðilum sem voru kannski, ekkert kannski heldur örugglega, tortryggnir í sambandi við innleiðingu á pakkanum hafi snúist hugur, eins og þingmaðurinn kom inn á. Tíminn eftir áramót og fram í mars, apríl, var notaður til þess að telja mönnum hughvarf. Fyrirvararnir eru efnið í þessi belti og axlabönd. Það er alveg ljóst í mínum huga.

En mig langar til að spyrja þingmanninn af því að ég hef orðið var við það að þeir sem voru tortryggnir út í þetta en tala núna máli pakkans eru frekar andstuttir og frekar pirraðir ef þeir verða varir við að við andæfum þeim. Getur verið að þessi pirringur (Forseti hringir.) hjá áðurnefndum þingmönnum sé vegna þess að þeir eru innst inni ekki mjög sannfærðir sjálfir?