149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að stefna Framsóknarflokksins síðustu ár er ekki alveg ljós. Hún er yfirleitt föl fyrir þrjú stykki af stólum eins og hér eru fyrir framan, jafnvel tvo. Það er ekki alveg á vísan að róa.

Það sem hins vegar undrar mann er dæmalaus undanlátssemi Sjálfstæðisflokksins við VG, skattahækkanir og ég veit ekki hvað. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði á fundi ekki alls fyrir löngu að Sjálfstæðisflokkurinn í dag væri sami flokkurinn í raun og Samfylkingin fyrir tíu árum. Ég er farinn að hallast að því æ meir að þetta hafi verið, eins og margt sem hann segir, algerlega laukrétt.

En af því að hv. þingmaður minntist á Styrmi Gunnarsson, sem er væntanlega sá núlifandi maður, myndi ég halda, sem þekkir Sjálfstæðisflokkinn einna best, og ég er að tala um Sjálfstæðisflokkinn undanfarin 50–60 ár, þá lét hann hafa eftir sér um daginn í blaðagrein að þessi þingsályktunartillaga væru mestu mistök í utanríkismálum sem hefðu verið gerð í sögu flokksins, ef ég man rétt.

Það hlýtur að fara um þingmenn eins og hæstv. forseta þegar svona orð hrjóta af munni manns eins og Styrmis Gunnarssonar, sem er líklega einn af innmúruðustu og innvígðustu mönnum í Sjálfstæðisflokknum í 50 ár. Þegar slík gagnrýni kemur fram, ekki bara út í loftið heldur rökstudd, hljóta menn að hugsa sinn gang.