149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir svarið. Út frá þeim sjónarmiðum sem komu fram í fyrra svari þingmannsins til þess sem hér stendur spyr ég: Hefur þingmaðurinn einhverja kenningu um hvers vegna svona illa er brugðist við stígi menn út af línunni?

Mig langar að koma fram með kenningu, kannski þingmaðurinn meti þá hvort hann telji mig vera á réttri leið eða vilji betrumbæta hana. Mér sýnist á öllu að stuðningsmönnum þessarar innleiðingar á þingi sem koma úr ríkisstjórnarflokkunum líði mörgum heldur illa með málið. Getur verið að ástæða þess að svona hart er brugðist við, þegar þekktir stuðningsmenn stíga út af línunni, sé sú að menn telji það auka líkurnar á að málið frestist, og þar með þurfi menn að ganga þessi svipugöng aftur, ef svo má segja, þó að það sé auðvitað ekki markmiðið með þessari umræðu um málið að koma pólitískum andstæðingum í sérstakt vandamál?

Markmiðið er auðvitað að bæta málið. En þegar þingmönnum líður illa með mál en eru búnir að ákveða að standa með því er fyrsti tíminn auðvitað bestur fyrir þann þingmann sem er í þeirri stöðu að málið klárist og að það sé frá. Tekur hv. þingmaður undir þessa kenningu mína eða hefur (Forseti hringir.) hann aðra betri?