151. löggjafarþing — 112. fundur,  12. júní 2021.

kosningalög.

339. mál
[01:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Forseti. Það eru þessi tvö atriði sem um ræðir, eitt varðar póstkosningarnar, en þingmaðurinn er ekki að spyrja um það, og síðan er það það sem varðar aðstoðina. Þar eru atriði sem vegast á, grunngildi sem vegast á, sem þarf að uppfylla til að tilgangi laganna sé náð, þ.e. til þess að vilji kjósandans skili sér raunverulega og hann kjósi þá sem hann vill kjósa og hafi um leið jöfn áhrif á við aðra um það hverjir semja leikreglur fyrir landið sem öllum er gert að fylgja. Þar er tvennt inni í myndinni: Eitt er að hafa raunhæfan rétt til að kjósa, þ.e. að einstaklingur geti raunverulega kosið. Póstkosningin auðveldar fólki sem býr erlendis að kjósa. Aðstoðarmaðurinn auðveldar þeim að komast á kjörstað sem annars eiga erfitt með það og kjósa miðað við þær forsendur sem verið hafa í lögunum. Hitt er síðan leyndin sem þarf að vera til staðar og þvingunin. Þarna vegst þetta allt á.

Ef einstaklingur biður um aðstoð, hvaðan getur hann fengið þá aðstoð samkvæmt núgildandi lögum? Jú, hann getur fengið aðstoð þeirra sem eru á kjörstað, starfsfólksins á kjörstað ef hann fer á kjörstað. Ef sýslumaður mætir á vistheimili þá er það hann sem tekur þetta að sér. Við fengum þær upplýsingar í nefndinni, frá þeim sem hafa staðið að slíkri framkvæmd, að stundum þyrfti hann að sitja í tvo klukkutíma til að fá vilja kjósandans fram. Þarna er ekki verið að tala um einrúm. Þarna er ekki verið að passa upp á kosningaleynd og ekki er verið að passa upp á að allt sé óþvingað. En við ákváðum samt að gera þetta út af því að það hefur verið í lýðræðishefð okkar að við viljum að réttindi fólks til að geta kosið vegi þyngra. Hér er verið að tryggja það á víðtækari forsendum að fötluðu fólki sem hvorki er blint né sjónskert og ekki heldur með höndina ónýta, ekki með líkamlega fötlun heldur býr við aðra fötlun, sé gert auðveldara að nýta atkvæði sitt. Það getur óskað eftir aðstoð (Forseti hringir.) starfsfólks á kjörstað en jafnframt óskað eftir sínum aðstoðarmanni. Þeir aðstoðarmenn geta aðstoðað þrjá þannig að það er takmörkun og það þarf að skrá þetta (Forseti hringir.) og Alþingi getur fylgst með. Það eru varnaglar sem eru slegnir.