139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fæðingar- og foreldraorlof.

748. mál
[16:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig standi á því að foreldraorlofið er svona lítið notað og að fólk almennt séð þekkir það ekki. Mér sýnist á þessu frumvarpi að við séum komin að mörkum þess flækjustigs sem almenningur getur skilið. Við erum að tala um fæðingarorlof milli landa. Maður sem kemur frá einhverju landi syðst í Evrópu, Evrópusambandinu, kemur til Íslands og þá þarf hann að fá upplýsingar hjá stjórnvöldum og stjórnsýslunni þar um hvað hann hefur greitt þar, fengið í laun og annað slíkt. Þegar ég reyni að sjá þetta fyrir mér, herra forseti, eru skeytasendingarnar orðnar ansi skrautlegar og flóknar. Ég hugsa að foreldraorlofið sýni okkur og sanni að kerfið er orðið flóknara en almenningur ræður við. Foreldraorlofið sem er mjög sniðugt og felst í því, fyrir þá sem ekki vita, að foreldrar geta tekið ólaunað leyfi án þess að missa stöðuna, eiga rétt á því eftir vissum reglum. Það hefur nánast ekkert verið notað þó að það sé mjög mikilvægt. Ef menn tengdu saman fæðingarorlof og foreldraorlof og síðan ekki síst greiðslur sveitarfélaga vegna umönnunar barna sem hleypur á 100 þús. kr. á mánuði, ef það mætti greiða foreldrunum þær værum við komin með kerfi þar sem fólk gæti annast barnið sitt í tvö, þrjú ár án þess að tapa miklu í tekjum. Það gæti annast börnin sín sjálft sem ég tel að mörgu leyti mjög heppilega lausn.