149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:12]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég var búinn að boða það að í þessari ræðu minni ætlaði ég að bæta fyrir það að mér hefði láðst þegar ég fór yfir virkjunarsögu Íslands fyrir nokkru að fara yfir hlut jarðvarmavirkjana í raforkuframleiðslu hér á landi. Ég hef fengið athugasemdir um það og vonast til að geta bætt úr því í einni ræðu.

Hlutur jarðvarmavirkjana í framleiðslu á rafmagni hefur aukist mjög hratt á Íslandi undanfarin ár. Fyrsta jarðvarmavirkjunin sem tekin var í notkun var Bjarnarflag árið 1969. Það var lítil virkjun með uppsettu afli upp á rúmlega 3 MW. Hefur framleiðsla þeirrar virkjunar verið mjög misjöfn og sum árin ekki verið nein framleiðsla. Mörg undanfarin ár hefur þetta verið lítil framleiðsla og var á síðasta ári vart teljandi, undir 1 GWst., 0,2 GWst. 2018, en fór upp í og yfir 20 GWst. á árunum 1973 og 1996–1998.

Næst í sögunni var Krafla, Kröfluvirkjun, sem var sett upp árið 1978 og var þá með uppsett afl upp á 12,5 MW og var aukið í 60 MW 1997. Raforkuframleiðsla Kröfluvirkjunar hefur verið vaxandi allt frá hinu litla afli í upphafi, eftir árið 1982 100 GWst., allt upp í 200 árið 1996 og yfir 500 í byrjun þessarar aldar og hefur verið í tæplega 500 GWst. árlega síðustu árin. Krafla er sjötta stærsta jarðvarmavirkjun landsins.

Virkjunin í Svartsengi var tekin í notkun árið 1977 og hefur verið stækkuð nokkrum sinnum, árið 1980 í 8 MW, 1989 í 11 MW, 1999 í 46 MW og loks í 76 MW árið 2007. Raforkuvinnslan hefur aukist í takt við það og var á árinu 2018 587 GWst. og hefur verið nokkuð stöðug síðustu ár. Svartsengi er fimmta stærsta jarðvarmavirkjunin.

Nesjavallavirkjun var tekin í notkun árið 1998 með uppsett afl upp á 60 MW og 120 MW árið 2005. Raforkuvinnsla fór fljótt vaxandi og fór nokkur ár yfir 1.000 GWst. en var á síðasta ári 970 GWst. Nesjavellir er næststærsta jarðvarmavirkjun landsins á eftir Hellisheiðarvirkjun.

Reykjanesvirkjun kemur þarna í millitíðinni, árið 2006, 100 MW. Raforkuvinnsla hefur aukist hratt þar, úr 500 GWst. í 600–800 undanfarin ár og á síðasta ári 810 GWst. Reykjanesvirkjun er þriðja stærsta jarðvarmavirkjun landsins.

Stærst er Hellisheiðarvirkjun sem var tekin í notkun árið 2006 með uppsett afl upp á 90 MW. Hún hefur verið stækkuð nokkrum sinnum, yfir 100, yfir 200 og núna í dag 303 MW. Raforkuvinnsla Hellisheiðarvirkjunar hefur að sama skapi vaxið stórum skrefum og var árið 2018 2.500 GWst. Hún er langstærsta jarðvarmavirkjun landsins.

Þeistareykir er fjórða stærsta virkjunin og var tekin í notkun 2017, 45 MW, árið 2018 90 MW og var raforkuvinnsla virkjunarinnar á Þeistareykjum á árinu 2018 680 GWst.

Það eru nokkrar litlar virkjanir, svo að ég ljúki yfirferð minni á þessum virkjunum. Það er Húsavík, lítil virkjun, 2 MW, frá árinu 2000. Hún var skammlíf virkjun, á árunum 2000–2007, og skilaði um og yfir 10 GWst. meðan hún starfaði. Á Flúðum er lítil virkjun starfandi upp á 0,6 MW af uppsettu afli (Forseti hringir.) en vinnsla var mjög lítil á síðasta ári.

Ég ætlaði að fara yfir fleira og mun gera það í næstu ræðu.