149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:25]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinni spurningu hans sem laut að jarðvarmavirkjunum sem ég fjallaði um í ræðu minni og mun halda áfram að fjalla um vegna þess að ég var ekki alveg búinn að ljúka umfjölluninni. Restin af þeirri ræðu er ekki síður áhugaverð.

Rafmagnsframleiðsla frá jarðvarmavirkjunum hefur vaxið mjög hratt á undanförnum árum. Hv. þingmaður spyr um hvort fyrir liggi áætlanir um hversu mikið er hægt að virkja á þessu sviði, hversu mikið er hægt að virkja af jarðvarma umfram það sem við höfum þegar gert.

Það nýjasta á þessu sviði síðustu árin er sérstakt rannsóknarefni, þ.e. svokallaðar djúpboranir sem ku geta fært okkur verulegt afl sem unnt er að virkja. Ef tími vinnst til kanna ég það örlítið betur og kem að því í ræðu síðar ef tækifæri gefst til, þ.e. varðandi áætlanir, væntingar og rannsóknir sem gerðar hafa verið á djúpborunum.

Jarðvarminn á Íslandi. Ég hef ekki kannað hvað menn áætla að hægt sé að virkja með skaplegu móti af honum umfram það sem nú þegar hefur verið gert. Tæplega þriðjungur af uppsettu afli á Íslandi er í formi jarðvarma. En jarðvarminn hefur gert okkur miklu meira en það, vegna þess að við höfum skipt úr olíu yfir í jarðvarma til húshitunar á undraskömmum tíma. Nú telst það vera sjálfsagður hlutur, en það var það ekki fyrir um 60 árum, þá var megnið af húsnæði landsins kynt með olíu.