149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða um djúpboranir og áhrif þeirra á umhverfið og orkuvinnsluna sem þegar er til staðar, að ekki sé talað um áformin um að flytja orkuna út í gegnum það fyrirkomulag sem stendur til að samþykkja, að innleiða tilskipun þrjú um sameiginlegan raforkumarkað Evrópusambandsins.

Ég vil í þessari ræðu minni halda áfram þar sem frá var horfið um raforkusamninga við stóriðjuna og þær fréttir sem bárust í gær um að Landsvirkjun hafi náð að hækka verulega verðið til Elkem á Grundartanga. Þessu hafa ákveðnir stjórnarliðar fagnað og greint frá því á sínum fésbókarsíðum, eins og sagt er. Ég held að ótímabært sé að fagna með þessum hætti vegna þess að ég tel að það verði að fara milliveg í þessum efnum, að hækka raforkuverðið ekki það mikið að það geti ógnað rekstraröryggi eða rekstrarforsendum fyrirtækja.

Ég nefni t.d. loðnubræðslurnar á sínum tíma þegar þær reyndu ítrekað að ná samningum við Landsvirkjun en án árangurs. Loðnubræðslurnar höfðu áhuga á því að skipta út jarðefnaeldsneytinu, þær voru knúnar með olíu, og vildu þess vegna skipta yfir í raforku. Því miður varð niðurstaðan sú að hagkvæmara var að knýja bræðslurnar með olíu í stað rafmagns og það eru alveg ótrúlegar fréttir í okkar landi að svo skuli vera með umframorku í kerfinu og þann umhverfisvæna orkugjafa sem rafmagnið er þegar kemur að þessum efnum.

Þetta er dæmi um það sem ég vil kalla stífni Landsvirkjunar sem getur leitt okkur út í ógöngur, ef svo má að orði komast. Við þekkjum náttúrlega að garðyrkjubændur hafa margsinnis kallað eftir hagstæðara raforkuverði, því miður fyrir afar daufum eyrum sem er að mörgu leyti alveg óskiljanlegt. Garðyrkjubændur framleiða þá frábæru vöru sem íslenskt grænmeti er og ætti að sjálfsögðu að styðja við bakið á þeirri framleiðslu með öllum tiltækum ráðum. Það er hagur allra að svo verði. Þetta eru mjög heilsusamlegar vörur, við sjáum fram á atvinnusköpun og svo dregur þetta náttúrlega úr kolefnissporinu margumtalaða. Það kostar nefnilega að flytja inn grænmeti erlendis frá, en þarna er fyrirtæki í eigu þjóðarinnar, Landsvirkjun, sem hefur ekki náð að færa garðyrkjubændum það góð kjör að hægt sé að efla þessa mikilvægu atvinnugrein.

Maður spyr hvar stjórnvöld séu þegar svo ber undir í þessum efnum, eins og með garðyrkjubændur, og hver sé eigendastefna Landsvirkjunar. Maður spyr einnig í ljósi frétta um verulega hækkun á raforkuverði til Elkem, fyrirtækis sem hefur átt í erfiðleikum: Er Landsvirkjun þarna að ógna atvinnuöryggi þúsunda starfsmanna í orkufrekum iðnaði?

Ég tek fram, herra forseti, að við í Miðflokknum erum að sjálfsögðu fylgjandi því að endurskoða raforkusamningana. Það verður bara að finna þá leið sem gerir það að verkum að báðir aðilar séu sæmilega sáttir vegna þess að það eru miklir hagsmunir fyrir þjóðarbúið að starfsemi þessara fyrirtækja haldi áfram. En ég sé, herra forseti, (Forseti hringir.) að ég næ ekki að klára þessa umfjöllun þannig að ég óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.