151. löggjafarþing — 112. fundur,  11. júní 2021.

stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

625. mál
[16:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og vil byrja á að taka undir það sem hv. þingmaður kom hér á framfæri af hálfu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um mikilvægi þess að hægt sé að fá upplýsingar á pappír og að við gleymum ekki þeim mikilvæga þætti vegna þess að það skiptir líka máli fyrir framtíðina, upp á söguna og varðveislu ýmissa skjala og annað slíkt, og að það verði ekki íþyngjandi hvað varðar gjaldtöku o.s.frv.

Það sem ég vildi koma inn á við hv. þingmann er að núna er það þannig að það er verið að safna alls kyns upplýsingum. Upplýsingar eru verðmæti. Heilu fyrirtækin gera út á þetta, eins og við þekkjum í gegnum samfélagsmiðlana. Verið er að fylgjast með mönnum, ef svo má að orði komast, hvað neyslu varðar, hvað þeir kaupa á netinu og ýmislegt, og svo er þetta allt flokkað niður. Það er orðinn gríðarlegur markaður og verðmæti í alls konar upplýsingum.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann að er: Hvað finnst honum um að stór fyrirtæki, t.d. hér á landi sem taka að sér að safna upplýsingum um Íslendinga, séu í eigu erlendra aðila? Það væri gott að fá sjónarmið hv. þingmanns hvað það varðar. Getur þetta varðað öryggishagsmuni að stór fyrirtæki, sem hafa haslað sér völl hér á Íslandi og safna upplýsingum, séu í eigu erlendra aðila að fullu? Gott væri ef hv. þingmaður gæti tjáð sig um það.