154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[13:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Landsskipulagsstefna er mikilvægur grundvöllur fyrir samtal á milli ríkis, sveitarfélaga og annarra sem taka afdrifaríkustu ákvarðanirnar fyrir samfélagið, hvernig það þróast til langrar framtíðar. Sú tillaga sem hér liggur fyrir ber því miður þess merki að hafa verið unnin í nokkrum flýti og hvorki ráðuneyti né meiri hlutinn nýttu tækifærið í samráði til að taka inn þær fjölmörgu góðu hugmyndir sem bárust um það hvernig væri hægt að styrkja þessa tillögu.

Yfir það er farið í áliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar að t.d. sé ekki tekið af alvöru á stórum álitaefnum þótt beinlínis sé snert á þeim í efni tillögunnar. Tökum sem dæmi líffræðilega fjölbreytni, lykilþátt í tillögunni, þar sem Náttúrufræðistofnun lagði til að setja hana í markvissari farveg, hvatti til að það yrði unnin leiðsögn fyrir sveitarfélögin að takast á við skipulagsmál með líffræðilegum fjölbreytileikagleraugum, sérstaklega varðandi sjókvíaeldi og orkuvinnslu. Það er nú aldeilis mál sem þyrfti aðeins að hjálpa sveitarfélögunum að taka á. (Forseti hringir.)

Þá er sérstaklega óheppilegt að umfjöllun um miðhálendið einkennist aðallega af því (Forseti hringir.) hvernig það eigi að vera vettvangur innviðauppbyggingar. Það er ekki vikið að tímasettri áætlun um að byggja upp miðhálendisþjóðgarðinn (Forseti hringir.) sem þjóðin á svo sannarlega skilið. Nei, ríkisstjórnin er löngu búin að gleyma því loforði. Þingflokkur Pírata mun ekki greiða atkvæði með þessari tillögu.