154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:13]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir ræðuna og fyrir að fara yfir það sem Miðflokkurinn leggur áherslu á í þessu máli. Ég get ekki sagt að ég sé eitthvað sérstaklega hrifinn af þeim breytingartillögum sem hér er verið að leggja fram en engu að síður er þetta mál sem er þess eðlis að menn hafa á því mjög mismunandi skoðanir. En það sem ég hjó eftir í ræðu hv. þingmanns og er í sjálfu sér alveg sammála, er að það hefur alltaf verið bagalegt í umræðu um útlendingamálin og hælisleitendamálin þegar verið er að grauta saman annars vegar verndarkerfinu og hins vegar þeim fjölda sem hingað kemur til að sækja vinnu, til að mynda í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það sem fylgdi hins vegar ekki sögunni hjá hv. þingmanni er að mér hefur fundist þingmenn Miðflokksins vera býsna duglegir við að gera einmitt það, að rugla saman annars vegar álaginu sem verður af þeim fjölda útlendinga sem hér er á innviði og blanda því alltaf beint inn í umræðuna um hælisleitendur. Það er nefnilega þannig að það koma tugþúsundir útlendinga hér til að vinna á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og þessu fólki fylgir álag á innviði; skóla, heilbrigðiskerfi og þar fram eftir götunum. Síðan er stærstur hluti þeirra sem koma hingað í gegnum verndarkerfið auðvitað fólk frá Úkraínu, það er rétt rúmlega helmingur þeirra sem hefur komið það sem af er á þessu ári. Þeir sem þar standa síðan fyrir utan eru í sjálfu sér ekkert rosalega fjölmennur hópur þótt vissulega sé það þannig að kostnaðurinn við að koma því fólki fyrir í samfélaginu er auðvitað umtalsverður og í sjálfu sér ágætt markmið að reyna að lækka þann kostnað eitthvað.

Þannig að mig langaði bara að spyrja hv. þingmann: Er það ekki einmitt þannig að þingmenn Miðflokksins hafa svolítið verið að grauta saman heildarálagi af útlendingum á innviði á Íslandi og heimfært yfir á þá sem hingað koma í leit að vernd og hæli?