138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

521. mál
[19:41]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er dálítið hugsi eftir þessa tölu hv. þingmanns vegna þess að ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvar hún er að staðsetja þá ósk að heimamenn séu látnir í friði, af því að ég veit ekki betur en að við eigum afar gott samstarf við sveitarfélög um land allt um atvinnuuppbyggingu. Við erum með viljayfirlýsingu í gangi, t.d. við sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum, og leitað hefur verið eftir því við ríkið af sveitarfélögum sem hv. þingmaður segir að vilji vera látin í friði. Leitað var til ríkisins um gerð fjárfestingarsamnings vegna uppbyggingar álvers í Helguvík. Það var nú aldeilis að beðið væri um að ríkið léti heimamenn og fyrirtækin í friði þegar óskað var eftir gerð þess samnings. Ég bið hv. þingmann að vera ekki svo popúlísk að fara að slíta í sundur og úr samhengi og kalla eftir algjöru afskiptaleysi ríkisins af ákveðnum svæðum. Við erum í samstarfi um atvinnuuppbyggingu. (Gripið fram í.) Við erum í samstarfi. Og dæmin um fjárfestingarsamninginn út af Helguvík og fjárfestingarsamning út af Verne eru akkúrat dæmi um slíkt samstarf þar sem sveitarfélögin og ríkið koma saman og leggja saman í samning, (Gripið fram í.) þar sem þau leggja saman í púkk til að af verkefnunum megi verða. Það er einfaldlega þannig.

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður ætti frekar að leggjast á þá sveif með Suðurnesjamönnum að vinna með okkur í staðinn fyrir að vera með þessar undarlegu upphrópanir hér um að það eigi að láta allt og alla í friði, vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þingmaður heldur þá ræðu sem hún hélt hér. Ég held að farsælast sé að við vinnum saman að uppbyggingunni hér á landi en köllum ekki eftir því að vera látin í friði, vegna þess að það er hrópandi mótsögn í málflutningi hv. þingmanns eins og ég hef hér bent á.