144. löggjafarþing — 113. fundur,  27. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[17:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um slysatryggingar almannatrygginga. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að það komi alveg skýrt fram í umræðunni að þetta frumvarp er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar og að tilgangurinn með frumvarpinu sé að færa gildandi ákvæði laga um slysatryggingar í sérlög án þess að gera á þeim efnisbreytingar.

Málið er þannig vaxið að það er afgreitt úr hv. velferðarnefnd í sátt og er þess vegna í þeirri „lúppu“ þingmála sem hafa verið afgreidd úr nefnd í sátt. Það er svo sem gott og blessað en þá kemur ákveðið rof vegna þess að þetta er í rauninni ein hliðin af teningnum ef svo má segja, vegna þess að við erum hins vegar með almannatryggingalögin og var nefndin ekki sammála um þær breytingar sem þar voru lagðar til, þess vegna er það mál ekki hér til umræðu því að þar erum við með meirihlutaálit og minnihlutaálit. Að sumu leyti hefði kannski verið þægilegt að hafa þessi mál saman á dagskrá til að geta rætt þau meira samhliða, en hérna þetta verður ef svo má segja kannski einangrað í umræðunni, en gott og vel. Við ræðum þetta þá bara samt sem best við getum svona aðskilið.

Það sem hér er lagt fram er að mínu mati nefnilega mikilvægt, að hér á ekki að gera neinar efnisbreytingar heldur er öllum efnisbreytingum vísað í þá umfjöllun þar sem fram kemur að endurskoða eigi þessi lög innan tveggja ára frá gildistöku þeirra. Hins vegar þegar kemur að almannatryggingafrumvarpinu þá er verið að gera ákveðnar efnisbreytingar og þar slitnar á milli meiri hluta og minni hluta hv. velferðarnefndar því að minni hlutinn hefði þá viljað hafa það eins í því máli, þ.e. að ekki væru lagðar til efnisbreytingar að svo stöddu, því þá ættum við að vera að klippa þessi tvö mál í sundur og koma slysatryggingunum í sérlög.

Svo ég einbeiti mér að þessu frumvarpi þá tel ég mikilvægt að segja að að mínu mati er mikil og nauðsynleg vinna sem liggur fyrir þeirri nefnd sem fær eða hefur það hlutverk að endurskoða lög um slysatryggingar. Það kom mjög skýrt fram fyrir nefndinni að nauðsynlegt er að breyta skilgreiningunni á því hvað slys eða vinnuslys er. Sú gagnrýni beindist einkum að því að hér þyrfti að vera um utanaðkomandi atburð að ræða. Vinnueftirlitið gerði mjög skýra grein fyrir því af hverju þetta væri ekki nógu góð skilgreining og undir athugasemdir Vinnueftirlitsins tóku fjölmargir aðrir aðilar sem komu fyrir nefndina. Ég tel því að þetta sé eitthvað sem er alveg gríðarlega mikilvægt að tekið verði til skoðunar. Eins og slys er skilgreint núna hljómar skilgreiningin svona, með leyfi forseta:

„Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans.“

Hér er áhersla á utanaðkomandi atburð. Og líkt og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, fór yfir áðan verður þetta til þess að fjölmargir einstaklingar eru á hverju ári útilokaðir frá því að fá bætur vegna vinnuslysa. Því er lagt til að mati Vinnueftirlitsins að vinnuslys verði skilgreint með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

„Með vinnuslysi er átt við skyndilegan óvæntan atburð í tengslum við vinnu sem veldur áverkum, heilsutjóni eða dauða eins eða fleiri einstaklinga.“

Það sem er svo mikilvægt hér er að ekki er lengur talað um utanaðkomandi atburð heldur eitthvað óvænt sem gerist. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að hún telur rök hníga að því að þetta slysahugtak verði skoðað, en í anda þess að samþykkja þá forsendu að hér væri bara verið að taka slysatryggingarnar, kljúfa þær út úr lögunum um almannatryggingar féllumst við á að að svo komnu máli yrði ekki gerð breyting á þessu. Ég ítreka það að ég tel gríðarlega mikilvægt að þetta verði gert og verð að viðurkenna það að mér finnst ég hreinlega vera að setja svolítið traust á þá sem fá það hlutverk að endurskoða þessi lög og við hreinlega treystum því að þar verði þetta tekið fyrir og þessari skilgreiningu breytt.

Það voru reyndar gerðar ýmsar tillögur í umsögnum á fundum nefndarinnar um aðrar efnisbreytingar sem varða bótarétt vegna slysa, sem ég tel einnig mjög mikilvægt að horft verði til þegar kemur að endurskoðun laganna. Það varðar til dæmis bótarétt vegna slysa í ferðum til og frá vinnu, um afmörkun hugtaka sem og atvinnusjúkdóma. Hér gildir það sama að ég bind nokkuð traust við það að þessi atriði verði tekin til ítarlegrar skoðunar við endurskoðun laganna og að þá verði fengnir þeir sem best til þekkja til að vinna úr þessum og örugglega fleiri tillögum sem berast um það hvernig hægt er að gera slysatryggingarnar betri til að þær þjóni örugglega sínu markmiði.

Að lokum vil ég koma inn á það sem hefur aðeins verið rætt í dag, sem er það hversu lág upphæð slysadagpeninga er. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir benti á það í ræðu sinni að munurinn á milli slysadagpeninga og atvinnuleysistrygginga hafi verið að aukast á undanförnum árum. Ég tel afar brýnt að skoða þetta og breyta og hreinlega hækka slysadagpeninga þannig að fólk geti komist af ef það lendir í slysi. Upphæðirnar eru það lágar núna að ég held að enginn einstaklingur, hvað þá einstaklingur sem hefur fyrir fjölskyldu að sjá geti í rauninni lifað af þeim upphæðum. Það verður að setja slysadagpeninga inn í samhengi þess hvað kostar að lifa í samfélaginu. Þó svo að þeir eigi kannski að vera til skamms tíma er mjög auðvelt að ímynda sér að óvænt slys getur líka haft í för með sér ýmis útgjöld fyrir einstakling sem vill vinna í sínum bata með sem bestum hætti. Þess vegna hlýtur að vera best fyrir samfélagið að einstaklingur sem glímir við eftirköst slyss hafi fjárhagslegar aðstæður til að geta það. Það er mjög erfitt að vinna í sjálfum sér og jafnvel breyttum aðstæðum ef fjárhagurinn er líka í rúst.

Líkt og ég sagði í upphafi máls míns fellst ég á að hér sé verið að gera þá breytingu að taka slysatryggingarnar og setja í sérlög, og líkt og ég hef rakið hér fellst ég þess vegna á að ekki sé verið að gera efnisbreytingar á þeim og vil því segja og ítreka aftur að ég hefði viljað að það sama gilti um breytingar á lögum um almannatryggingar. Þar er hins vegar verið að leggja til breytingar sem eru íþyngjandi fyrir bótaþega. Ein efnisbreytingin lýtur að því að ráðherra fái heimild til að ráða staðsetningu stofnunar eða útibúa hennar. Ég tel mjög misráðið að færa það vald til ráðherra vegna þess að þeir sem eru helstu viðskiptavinir Tryggingastofnunar eru langflestir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er viðkvæmur hópur. Ég tel að allt rask með því að flytja eða bara hreinlega möguleikinn á því að tekið verði upp á því að flytja stofnunina geti haft mjög neikvæð og íþyngjandi áhrif á þann hóp. Eins er verið að leggja þar til skerðingu á réttindum fanga til bóta. Ég hefði viljað í því máli geyma allar slíkar efnisbreytingar og aðskilja þessi tvö mál á þessu stigi máls. Þetta mun ég fara betur yfir þegar það mál kemur á dagskrá, en tel engu að síður mikilvægt að nefna það hér því að þessi mál eru nátengd.