149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:46]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Mig langar til að nota tækifærið og þakka því unga fólki sem hefur staðið vaktina í loftslagsverkföllum á Austurvelli síðustu föstudaga. Þau hafa sýnt mér að þrátt fyrir myrka framtíðarsýn í loftslagsmálum er von til staðar og veruleikinn getur orðið annar ef við grípum til aðgerða. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í það sem þau hafa að segja um málefnið:

„Sýnum í verki að okkur er umhugað um framtíð okkar, barna okkar og komandi kynslóða.

Krefjumst róttækra og metnaðarfullra aðgerða gegn loftslagsvánni því það ríkir neyðarástand vegna þeirra loftslagshamfara sem hér eru að eiga sér stað.

Tíminn er á þrotum og við þurfum aðgerðir núna strax.“

Ég tel að ríkisstjórnin og við sem sitjum hér á þingi þurfum að bregðast við þessu ákalli með skýrari hætti. Við virðumst vera hrædd við að horfast í augu við vandamálið og okkar eigin ótta. Unga fólkið hefur þó sýnt okkur að við þurfum og neyðumst til að horfast í augu við þennan ótta. Við höfum lokað augunum allt of lengi og líkt og Greta Thunberg hefur svo djarflega bent á, með leyfi forseta:

„Húsið okkar er að hruni komið og leiðtogar okkar þurfa að fara að bregðast við í samræmi við það því að eins og stendur eru þeir ekki að gera það.“

Staðan í loftslagsmálum ætti svo sem ekki að koma neinum á óvart. Ríki heims og einkafyrirtæki höfðu tækifæri til að grípa í taumana strax á 20. öld. Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar var flestöllum ljóst í hvað stefndi. Ekki var gripið til róttækra aðgerða þá. Hvers vegna? Af hverju þetta skeytingarleysi gagnvart framtíðarkynslóðum og lífvænleika jarðarinnar?

Stutta svarið er að sérhagsmunir fárra voru teknir fram yfir almannahagsmuni, hagsmuni stórfyrirtækja og þá sérstaklega þeirra sem hagnast á því að leita eftir og selja jarðefnaeldsneyti. Gríðarlegum fjármunum hefur verið varið í það að skekkja orðræðuna, fá fólk til að efast um að það stafi raunveruleg ógn af hamfarahlýnun svo að stórfyrirtæki hafa fengið að halda áfram að græða meiri peninga óáreitt á meðan almenningur og stjórnvöld eru látin rökræða hvort um sé að ræða ógn eður ei.

Loftslagsváin er sjálfskaparvíti okkar mannfólksins. Við höfum því miður verið látin eyða allt of miklum tíma í að finna sökudólg. En til að koma í veg fyrir frekari loftslagshamfarir þurfum við að hætta að benda hvert á annað og fara að axla ábyrgð. Það hefur þó orðið okkur til happs að margir hafa tekið vána alvarlega en ég held að við séum bara orðin svolítið þreytt á því að þrífa plast til endurvinnslu þegar við sjáum að ríkisstjórnin og einkafyrirtæki veigra sér við því að axla ábyrgð. Það er kominn tími til að fá stjórnmálafólk, sem hefur staðið hér fyrir gegndarlausri stóriðjuuppbyggingu, til að horfast í augu við þau óafturkræfu umhverfisspjöll sem slík iðja hefur orsakað hér á Íslandi og annars staðar í heiminum. Ísland getur ekki lengur verið í forsvari fyrir því að hvítþvo mengandi stóriðju. Loftslagsváin er vandamál á heimsvísu og kemur öllu mannkyninu við.

Ríkisstjórnin hefur vissulega birt aðgerðaáætlun sem á að taka á loftslagsvandanum en henni hefur hvorki fylgt nægt fjármagn né greining á því hvernig framkvæma eigi áætlunina. Við erum því miður komin á þann stað að falleg orð, óskuldbindandi sáttmálar og innantóm loforð munu ekki koma í veg fyrir komandi loftslagshamfarir. Við þurfum ekki fleiri undirskriftir á plögg, við þurfum ekki fleiri handabönd með brosandi stjórnmálafólki. Við þurfum aðgerðir og við þurfum að gera okkur grein fyrir að loftslagsváin er vandamál sem við getum ekki talað eða brosað frá okkur. Það ríkir neyðarástand, sama hvort ríkisstjórnin tekur formlega ákvörðun um að lýsa því yfir eður ei.

Auðvitað er erfitt fyrir ríkisstjórn að lýsa yfir hættuástandi og eiga á hættu að vekja hræðslu meðal almennings og þar með missa atkvæði í næstu kosningum. En ef það er kosningafylgi sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa áhyggjur af er ágætt að benda á að ungmennin sem safnast saman á Austurvelli verða mörg hver komin með kosningarrétt í næstu kosningum og loftslagsváin er ekki að fara neitt nema gripið verði til aðgerða. Af hverju ættu þau að hafa áhuga á að halda hjólum atvinnulífsins gangandi eða auka hagvöxt samfélagsins ef framtíð samfélagsins og heimsins er sannanlega í hættu? Loftslagsverkföllin eru ekki tískufyrirbrigði sem stjórnvöld geta haldið áfram að leiða hjá sér.

Að lokum ætla ég að taka undir orð Gretu Thunberg, með leyfi forseta:

„Það er ekki of seint að bregðast við. Það þarf langtímasýn, það þarf hugrekki og það þarf mikla ákveðni til að bregðast við núna og byggja undirstöður þegar við vitum kannski ekki öll smáatriðin um hvernig á að byggja þakið. Með öðrum orðum, við þurfum dómkirkjuhugsunarhátt. Ég bið ykkur vinsamlegast um að vakna og gera þær breytingar sem þörf er á mögulegar.“

Að lokum legg ég til að feðraveldið verði lagt niður. — Góðar stundir.