151. löggjafarþing — 113. fundur,  12. júní 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[14:17]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Miðflokkurinn fagnar þeirri stefnubreytingu sem hér á sér stað, að fallið sé frá lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga. Þessari ófyrirleitnu og fyrirhyggjulausu herferð gegn minni sveitarfélögunum og sjálfsstjórnarrétti þeirra hefur verið hrundið. Það er ekki svo að burðir sveitarfélaga til þjónustu séu bundnir við fjölda íbúa. Það er heldur ekki svo að brotalamir í þjónustu sveitarfélaga séu bundnar við smærri sveitarfélög fremur en þau stærri. Það er ekki svo að sjálfbærni sveitarfélags verði talin bundin við stærð þess og nægir í því að bera saman fjárhagsstöðu ýmissa sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar.

Ráðherra er í frumvarpinu fært mikið vald til að skilgreina kröfur sem gerðar eru til minni sveitarfélaga og til sjálfbærni og þjónustu en ekki hinna stærri. Þess vegna mun Miðflokkurinn styðja breytingartillöguna en sitja hjá við afgreiðslu málsins í heild sinni.