154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[13:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég styð þessa tillögu og þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir góða vinnu. Ég ætla engu að síður að ítreka það sem ég sagði í 1. umræðu, að mér þykir tími til kominn að við næstu endurskoðun á landsskipulagi verði það hreinlega uppdráttur sem setji niður alla þjóðhagslega mikilvæga innviði, hvort sem það eru hafnir, flugvellir, meginvegakerfi, rafkerfi eða annað þess háttar. Ég fagna þeirri umfjöllun sem er í nefndarálitinu um einmitt þjóðhagslega mikilvæga innviði en ég beini því til ráðuneytisins að næst þegar komið er með slíka endurskoðun inn í þennan þingsal þá séum við bara með uppdrátt eins og tíðkast við aðalskipulag og deiliskipulag. Þá er það landsskipulagið sem sveitarfélögin þurfa að fylgja þegar að þessum mikilvægu innviðum kemur.