154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[13:57]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur tekist á við þetta mál í vetur og við erum búin að taka tvær umræður um þetta mál. Ég vil leggja áherslu á það sem kemur fram í nefndarálitinu og snýr að þjóðaröryggishagsmunum og mikilvægi þess, þar sem við erum ekki með þjóðaröryggislöggjöf á Íslandi, að hafa áherslu á það í næstu endurskoðun þessarar stefnu að tekist sé á við málefni sem snúa að þjóðhagslegu öryggi og þjóðhagslega mikilvægum innviðum; raforkukerfum, fjarskiptakerfum, samgöngumannvirkjunum okkar og því sem snýr að grunninnviðum þessa samfélags.

Það hlýtur að fara að koma að þeim tímapunkti að við, eitt kannski tveggja, þriggja ríkja í Evrópu sem eru ekki með löggjöf sem snýr að grunninnviðum samfélags og þjóðhagslega mikilvægum innviðum — ég tel að það sé mikilvægt að það sé farið sem fyrst í slíka vinnu og vil koma þessu á framfæri við vinnsluna. Þetta er allt aðeins til bóta en við þurfum að gera mun betur.