149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að koma inn á tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 frá heilbrigðisráðherra. Eins og komið hefur fram er eitt af markmiðum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að vinna heilbrigðisstefnu og á stefnan að fela í sér framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustu til næstu tíu ára.

Í því sambandi er fróðlegt að skoða það sem fagfólk hefur sagt um þá stefnu eða hefur fram að færa í þeim efnum. Þar á meðal er formaður Læknafélags Reykjavíkur og stjórnarmaður Læknafélags Íslands sem segir heilbrigðisstefnu heilbrigðisráðherra ekki vera afrakstur faglegrar og nútímalegra stefnumótunarvinnu, Hann segir hana heldur vera lið í að ríkisvæða heilbrigðisþjónustuna hratt og hljótt. Þetta kemur fram í pistli hans í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. „Heilbrigðisstefna í öngstræti“, nefnir hann pistilinn og gagnrýnir þar harðlega þau vinnubrögð sem voru viðhöfð við þessa stefnumótun.

Hann segir jafnframt að veikleiki stefnunnar opinberist fyrst og fremst í því að í hana vanti umfjöllun um hin ýmsu heilbrigðismál, sem er mjög athyglisverð gagnrýni. Nefnir hann fjölda dæma og segir að m.a. sé ekkert fjallað um öldrunarþjónustu, hjúkrunarheimili eða geðheilbrigðismál. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það er ótrúlegt að ekki skuli vera minnst á svo mikilvæga þætti heilbrigðisþjónustunnar í stefnumörkun í heilbrigðismálum til ársins 2030.

Formaðurinn segir einnig að það vanti að mestu umfjöllun um stóran, vaxandi og mikilvægan hluta heilbrigðiskerfisins sem sé heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa. Hann segir að við gerð heilbrigðisstefnunnar hafi ekki verið farið eftir hefðbundinni stefnumótunarvinnu og bætir við að gagnaöflun og stöðumat við gerð stefnunnar hafi verið takmarkað og að greining gagna hafi aldrei verið framkvæmd. Þá hafi algerlega verið horft fram hjá fyrri heilbrigðisáætlunum við gerð stefnunnar og tillögur um innleiðingu og mælanleg markmið séu fáar í stefnunni og tilviljunarkenndar. Ekki hafi verið tekið tillit til ábendinga fagfólks þrátt fyrir fjölmargar ábendingar þess og leikmanna á fundum á heilbrigðisþingi og í samráðsgáttinni, sem er ansi hörð gagnrýni. Þessar ábendingar hafi allar verið virtar að vettugi og talið að um svokallað sýndarsamráð sé að ræða.

Formaðurinn segir að stefnan sé í raun og veru ónothæf og að það vanti alla heildarsýn. Heilbrigðiskerfið þurfi að vera aðgengilegt öllum landsmönnum og biðlistar í lágmarki og gæta þurfi jafnræðis milli sjúkdóma og sjúklinga. Hann segir að forsenda slíkar þróunar sé heildstæð og vönduð langtímastefnumótun. Í heilbrigðisstefnu ráðherra sé hins vegar ekki að finna slíka stefnu og hvetur hann þingmenn til að hafna þingsályktunartillögunni. Þarna er skilmerkilega til orða tekið og enginn vafi í huga hans um þau efni.

Hann leggur einnig til að ráðuneytinu verði falið að hefja vandaða vinnu við mótun heilbrigðisstefnu allra landsmanna, leiti til þess aðstoðar fagmanna í stefnumótun og leggi þannig fjármuni til verkefnisins að unnt sé að vinna af ýtrustu fagmennsku. Framtíð heilbrigðiskerfisins okkar er í húfi, segir formaður Læknafélags Reykjavíkur að lokum.

Það eru ekki bara formaður Læknafélags Reykjavíkur sem hefur gagnrýnt heilbrigðisstefnuna heldur má einnig finna gagnrýni í orðum formanns Læknafélags Íslands sem segir eins og formaður Læknafélags Reykjavíkur að skort hafi á samráð við mótun heilbrigðisstefnu til 2030.

Það verður að segjast að þetta er býsna alvarleg gagnrýni á stefnuna, að ekki skuli hafa verið leitað til fagfólks og að ekki skuli hafa verið haft samráð. Einn af mikilvægu þáttunum við mótun slíkrar stefnu er að hafa gott samráð.

Sóttvarnalæknir hefur auk þess bent á að lítið eða ekkert sé fjallað um mikilvæg atriði eins og varnir og viðbrögð við alvarlegum smitsjúkdómum og öðru sem geti ógnað almannaheill.

Læknafélag Íslands er ósammála þeim uppgjafartóni, sem það kallar, í heilbrigðisstefnunni gagnvart mönnun grunnheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Hvergi sé heldur getið ákvæða um lágmarksmönnun starfseininga innan heilbrigðiskerfisins. Ekkert sé minnst á endurskoðun á stjórnskipulagi heilbrigðisstofnana. Félagið telur hugmyndir um aukið hlutverk forstjóra heilbrigðisstofnana óheppilegt fyrirkomulag. Gæta þurfi þess að þeir hafi ekki bæði framkvæmd og eftirlit með höndum, eins og skilja megi.

Herra forseti. Ég hef rakið þá gagnrýni sem fram hefur komið frá Læknafélagi Reykjavíkur og Læknafélagi Íslands. Þar er að finna ansi harða gagnrýni, eins og ég hef farið í gegnum, sem vekur mann svo sannarlega til umhugsunar um þá stefnu sem hér er lögð fram. Gengið er svo langt að hvetja þingmenn til að hafna stefnunni.

Ég ætla þá að líta á umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þar segir að forvarnir og lýðheilsu, umfjöllun um þá mikilvægu þætti heilbrigðisstefnunnar, vanti. Í lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, komi fram að eitt af markmiðum landlæknis sé að annast forvarnir, heilsueflingarverkefni og efla lýðheilsustarf. Það er því nauðsynlegt að mati félagsins að setja stefnu um forvarnir og lýðheilsu inn í heilbrigðisstefnuna og skal tekið undir það hér.

Heilsugæslunni er ætlað stórt hlutverk en ekki er getið um hlutverk hennar varðandi forvarnir og lýðheilsu. Félagið telur að þótt heilsugæslunni sé ætlað samkvæmt heilbrigðisstefnunni að bjóða upp á ráðgjöf um heilbrigðan lífsstíl fyrir einstaklinga og hópa nái það ekki yfir forvarnir og lýðheilsu. Því sé nauðsynlegt að kveða nánar á um þann grundvallarþátt heilbrigðisþjónustunnar í heilbrigðisstefnunni. Auk þess kemur fram í umsögninni að ekki sé minnst sérstaklega á endurhæfingu í stefnunni þótt endurhæfing sé sífellt stækkandi þáttur heilbrigðisþjónustunnar. Einnig sé ekki minnst einu einasta orði, rétt eins og kom fram í bæði gagnrýni Læknafélags Reykjavíkur og Læknafélags Íslands, á hjúkrunarheimili eða hjúkrun aldraðra þótt ljóst sé að aldraðir séu vaxandi hópur sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda næstu áratugina. Lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 41/2007, taki til hjúkrunarrýma á hjúkrunarheimilum eða sjúkrahúsum og því sé ekki hægt að fjalla um heilbrigðisstefnu án þess að minnast einu orði á þennan vaxandi þátt heilbrigðisþjónustunnar.

Bent er á að sérstakur kafli sé í stefnunni sem beri heitið Fólkið í forgrunni. Þar sé að finna fagra framtíðarsýn sem vonandi nái fram að ganga og segja megi að það sé einn mikilvægasti kafli stefnunnar.

Ég tek undir það sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga segir um að lítið muni fara fyrir heilbrigðisþjónustunni ef ekki verði neitt heilbrigðisstarfsfólk til að veita þjónustuna, en eins og við þekkjum og höfum rætt í þingsal er skortur á heilbrigðisstarfsfólki hér á landi. Í umsögninni segir einmitt að mikið vanti af hjúkrunarfræðingum og svo hafi verið um langt árabil. Ekki séu nein teikn á lofti um að breytingar verði á því í nánustu framtíð nema stjórnvöld grípi til markvissra aðgerða. Skýringarnar á þessu eru vel þekktar; mikið álag í starfi, óviðunandi starfsumhverfi, vinnutími og mikil vaktabyrði. Á þeim þáttum eigi að taka fyrir árið 2030 samkvæmt stefnunni sem sé nauðsynlegt. Vonandi gengur það eftir.

Í því samhengi er nauðsynlegt að vekja athygli á kjarasamningum heilbrigðisstarfsmanna sem nú eru lausir. Í því felast náttúrlega tækifæri til að hefja þá vegferð sem fram kemur í stefnunni. Einn af mikilvægustu þáttunum við að reyna að sporna við fækkun í þessari mikilvægu stétt er að ná að gera kjarasamning sem verður til þess að fólk vill snúa aftur til slíkra starfa. Það er þekkt að ótrúlega margir sem hafa menntun á því sviði, eins og í hjúkrun, starfa ekki í greininni heldur sinna öðrum störfum. Það er því mikilvægt, líkt og segir í umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, að stjórnvöld komi að endurnýjun kjarasamninga heilbrigðisstarfsmanna með afgerandi hætti og markvissum lausnum og hefji þar með vinnuna við að setja fólkið í forgang.

Félagið segist svo vilja koma á framfæri að í stefnunni sé talað um lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk og rétt sé að gera athugasemdir við það. Eðlilegra og réttara sé að nota orðið „heilbrigðisstarfsfólk“ í slíku samhengi og tilgreina ekki lækna sérstaklega. Verið sé að setja stefnu fram í tímann og sú stefna verði að vera framsækin. Leggja þurfi áherslu á mikilvægi allra heilbrigðisstétta til að ná þeim árangri í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi sem stefnt sé að. Undanfarin ár hafi verið aukin áhersla lögð á þverfaglega teymisvinnu og sé samvinna og samskipti mismunandi fagstétta grundvöllur að öruggari og heildstæðari þjónustu til skjólstæðinga.

Í kafla í stefnunni um rétta þjónustu á réttum stað er lögð sérstök áhersla á sérfræðinga í heilbrigðislækningum. Við þetta gerir Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga athugasemd og segir að ekki sé hægt að taka eina stétt út fyrir sviga þegar rædd sé framtíðarstefna sem sé í raun og veru afturhvarf frá því sem nú er. Nauðsynlegt sé að horfa fram á við með þarfir skjólstæðinga að leiðarljósi. Nú þegar séu t.d. hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og sjúkraþjálfarar með sjálfstæðar móttökur á heilsugæslustöðvum sem fari vaxandi auk þess sem heimahjúkrun sé stór þáttur í þjónustunni. Það þurfi því að fjalla um heilbrigðisstéttir í stað einnar starfsgreinar ef stefnan eigi að endurspegla rétta þjónustu á réttum stað.

Að lokum ítrekar Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga þann vilja sinn að koma að nánari vinnu við heilbrigðisstefnuna þegar farið verði að setja markmið og mælanlegar leiðir til að ná þeim. Þetta er sama og kemur fram hjá Læknafélagi Íslands og Læknafélagi Reykjavíkur, að það virðist vera skortur á samráði, sem er náttúrlega ekki gott. Hjúkrunarfræðingar starfi á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar og hafi því víðtæka þekkingu og reynslu af heilbrigðiskerfinu sem nýtist við slíka markmiðasetningu.

Herra forseti. Ég vil að lokum koma aðeins inn á annan þátt sem mér finnst vanta í stefnuna en það eru sjúkraflutningarnir. Gleymum því ekki að sjúkraflutningar eru heilbrigðismál og sjúkraflutningar eru fremsta línan í þjónustu heilbrigðiskerfisins, ef svo má að orði komast, við bráðar uppákomur. Það vill hins vegar oft gleymast að sjúkraflutningar eru heilbrigðismál og kannski gleymast þeir vegna þess að þeim er að stóru leyti útvistað til þriðja aðila. Við þekkjum að slökkviliðin sjá um mikinn meiri hluta sjúkraflutninga á landinu og er samið um þá á nokkurra ára fresti. Þess á milli heyrist ekki mikið um að aukin þörf sé á fjármunum í verkefnið en fjöldi útkalla hefur vaxið stöðugt og álag á kerfið er mikið.

Ég hefði líka viljað sjá fjallað til framtíðar í stefnunni um sjúkraflutninga með þyrlum. Um það verkefni hefur verið rætt, að sett verði á laggirnar tilraunaverkefni á Suður- og Vesturlandi. Ég hefði talið eðlilegt að þess yrði getið í stefnunni að það væru mikil tækifæri í því til að bæta þjónustuna. Við þekkjum að Landhelgisgæslan hefur sinnt sjúkraflutningaútköllum. En hugmyndir um að það verði sérstök þyrla notuðu í þetta og sérstakt teymi eru mjög áhugaverðar. Höfum í huga að það er náttúrlega mikill ferðamannastraumur, til að mynda á Suðurlandi, miklar vegalengdir sem þarf að fara til að komast á bráðasjúkrahús og þarna eru tækifæri sem ætti að skoða mun nánar og hefði verið eðlilegt að væri minnst á í stefnunni. Mér finnst svolítið undarlegt að það skuli ekki gert.

Til að taka þetta saman í lokin hefur sú stefna sem hér liggur fyrir og við erum að ræða fengið mjög harða gagnrýni frá Læknafélagi Reykjavíkur og Læknafélagi Íslands. Þar er meira að segja gengið svo langt að hvetja þingmenn til þess að hafna stefnunni. Það er ansi hörð gagnrýni og nauðsynlegt að farið verði ofan í saumana á henni. Það er ljóst, herra forseti, að samkvæmt þeim aðilum var greinilega skortur á samráði um við gerð stefnunnar sem er að sjálfsögðu ekki gott þegar um svona mikilvægt verkefni er að ræða. Ég hefði t.d. viljað sjá rætt meira um fjarheilbrigðisþjónustu o.fl. En ég sé að tíminn er útrunninn og er mál að linni.