Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

fordæming ólöglegs brottnáms úkraínskra barna.

1122. mál
[16:53]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við þetta mál. Mér skilst að það sé ekki alvanalegt að Alþingi gefi yfirlýsingar af þessu tagi. Líkt og kom fram í máli hv. þingmanns hér áðan þá er þessari yfirlýsingu sannarlega ætlað að vera það sem kallað var táknrænn stuðningur við Úkraínu. Það sem ég hins vegar tel mikilvægara sem felst í þessari þingsályktunartillögu er fordæming stríðsglæpa og brota á alþjóðlegum mannúðarlögum.

Í þjóðarétti búum við nefnilega við þá sérstöðu að það er í sjálfu sér ekkert yfirvald. Þegar ég var í laganámi þá fannst mér þjóðaréttur, sem er í rauninni bara þau lög og þær reglur sem gilda á milli þjóða en hver þjóð um sig hefur síðan forræði yfir sínum innri lögum og reglum, vera áhugaverður og þetta svið vegna þess að það er í rauninni almennt ekkert yfirvald og þá byggjast þær reglur og þau viðmið og viðbrögðin við brotum á þeim reglum og viðmiðum, á okkar viðhorfum, sameiginlegu viðhorfum til rökstuðnings og samskipta fyrst og fremst. Í rauninni má segja að þó að í þjóðarétti séu það þjóðir og ríki sem eigi samskipti þá kristallast hvergi jafn skýrt að öll stjórnmálaleg samskipti eru mannleg samskipti. Hvers vegna skiptir þá þetta máli? Það sem við erum að gera með þessari yfirlýsingu er eitt af því fáa sem hægt er að gera með friðsamlegum hætti til þess að viðhalda þeim viðmiðum og gildum sem við höfum komið okkur saman um.

Það er ákveðin sérstaða líka við ákveðna tegund þjóðréttarreglna sem taldar eru hafa gildi um öll ríki heims, hvort sem þau hafa skrifað undir það sjálf eða ekki með sérstökum samningum. Þar á meðal eru ýmsar reglur sem lúta að því hvernig skuli komið fram við almenna borgara í stríðsástandi og annað slíkt. Það sem er að gerast núna með þessu ólöglega og kerfisbundna brottnámi barna af hálfu rússneska hersins frá hernumdum svæðum í Úkraínu er brot á slíkum grundvallarreglum. Ég er ekki mikill aðdáandi stríðsátaka og er mikill friðarsinni og tel mannkynið fullfært um að komast á þann stað að við getum leyst úr okkar deilum með öðrum hætti. Í þjóðarétti og í samskiptum þjóða eru ákveðnar reglur sem gilda í stríði. Það eru annars vegar reglur sem gilda þegar ekki er um stríð að ræða, utan stríðsátaka, og aðrar reglur sem gilda um stríðsátök, sem snúast um það hvernig skuli berjast fyrir sínum réttindum, fyrir sjálfstæði og öðru slíku. Þær reglur lúta ekki síst að því að tryggja það að þegar þjóðir eiga í ágreiningi, ríki eiga í einhvers konar átökum eða eitt ríki ræðst á annað og hitt reynir að verja sig eða eitthvað slíkt, þá bitni það ekki á almennum saklausum borgurum umfram það sem nauðsynlegt er og í rauninni á það náttúrlega bara alls ekkert að gera það þótt það geri það sannarlega.

Hér er kerfisbundið verið að nema börn á brott og sannarlega uppi áhyggjur af því að það sé verið að misnota þessi börn. En það er líka verið að reyna að brjóta á bak aftur þá þjóð sem ráðist hefur verið á. Það er einn af þeim hlutum sem eru taldir algerlega óásættanlegir við hvaða aðstæður sem er. Þetta eru reglur sem ekki má brjóta undir neinum kringumstæðum og eru ekki frávíkjanlegar undir neinum kringumstæðum. Sama máli gegnir um það að ráðast á grunninnviði, hvað skal segja, gagnaðila — í þessu samhengi er erfitt að finna réttu orðin til að lýsa því sem er í gangi. Það er líka alltaf brot.

Eins og ég nefndi hér áðan þá skilst mér að það sé kannski ekki óheyrt en tiltölulega óvanalegt að Alþingi fordæmi hluti af þessu tagi. Ég er frekar á þeirri skoðun að við ættum að gera meira af því vegna þess að það skiptir máli. Þetta er ekki bara, eins og það var orðað hérna áðan, táknrænn stuðningur í Úkraínu. Þetta er líka yfirlýsing um að þetta séu reglur sem þjóðum beri að virða. Þetta er okkar viðhorf, þetta eru okkar viðmið, þetta eru reglur sem ekki má brjóta. Það er það sem skiptir máli og það skiptir enn meira máli í kerfi þar sem eru ákaflega takmarkaðar leiðir til þess að draga þá sem brjóta reglurnar til ábyrgðar. Það er sannarlega áskorun í þjóðarétti eins og öllum er kunnugt um. Ein leiðin er sannarlega sú ofbeldisfulla, þessar innrásir, sem ég held að allir séu sammála um að sé eitthvað sem við ættum að vera búin að hverfa frá nú til dags. En það er hins vegar ekki þannig. Við erum ekki komin þangað. Þá gilda þessar reglur.

Ég styð því þetta mál eindregið. Í umræðum um það, svona í kaffispjalli hér og þar sem þetta hefur verið nefnt, bæði innan þings og utan, þessi tillaga að að Alþingi fordæmi þetta með formlegum hætti og önnur ríki hafa gert það og fleiri aðilar, þá kemur stundum upp sú athugasemd að það sé nú alveg fullt af hræðilegum hlutum sem eru að gerast. Fólk er útsett fyrir mansali og annað slíkt og það er gríðarlega mikið af ofbeldi og óreiðu sem er afleiðing átaka af þessu tagi. Sérstaða þessara skelfilegu atburða í því samhengi er sú að þarna er ríki í rauninni opinberlega og hefur viðurkennt að vera að gera það sem það er að gera. Rússnesk stjórnvöld hafa gengist við því sem þau eru sökuð um, að einhverju leyti, þó svo að þau noti sannarlega önnur hugtök yfir það. Það er ekkert óalgeng leið til þess að reyna að verja eitthvað slíkt, að kalla það einhverju öðru nafni. Það er talað um að verið sé að bjarga þessum börnum sem séu bara munaðarlaus, þó að sýnt hafi verið fram á það að þau séu það mörg hver bara alls ekki, og þó að þau væru það þá er ekki neitt sem réttlætir þær aðgerðir sem þarna eru í gangi. Það sem skiptir þess vegna máli við að fordæma þetta er að þetta snýst um samskipti ríkja og við sem Alþingi Íslendinga erum ein grunnstoða íslenska ríkisins og það skiptir máli að við segjum það upphátt að við samþykkjum þetta ekki.

Mig langar því að fagna þessari tillögu. Ég styð hana heils hugar og ég held ég endurtaki það bara og muni geta staðið við það að ég er á þeirri skoðun að við ættum að gera meira af því að lýsa yfir stuðningi okkar við grundvallarviðmið og grundvallargildi í samskiptum þjóða.