149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Vissulega er sú vinna sem hv. þingmaður vísar þarna til alveg ágæt, en ég hefði talið réttara að minnst yrði á það í þessari stefnu, sérstaklega með sjúkraflutningana, vegna þess að þeir eru mjög mikilvægur þáttur heilbrigðisþjónustunnar og sjálfsagt og eðlilegt að nefna þá í stefnunni og vísa til þeirrar vinnu sem farið hefur fram. Ég held að það væri eðlilegt að sá sem les þessa stefnu í fyrsta sinn sæi að minnst væri á þessa hluti.

Ég sakna þess sérstaklega að ekki skuli vera minnst á hugmyndir um þyrlu fyrir sjúkraflutninga vegna þess að það er nokkuð sem við sæjum fyrir okkur í framtíðinni að væri mjög vænlegur kostur til að bæta þjónustustigið, bregðast við auknum ferðamannastraumi o.s.frv. Við vinnu við framtíðarstefnu hljótum við að reyna að finna þá þætti sem koma til með að nýtast, eins og nýjungar og breyttar áherslur og betri þjónusta. Það ætti að minnast á þessa þætti innan þessarar stefnu.

Ég er ekki að gera lítið úr vinnu nefndarinnar, en það er augljóst að fagaðilar hafa gagnrýnt þessa stefnu og það er eitthvað sem bregðast þyrfti við. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála mér í því.